Baksvið: Viðvörunarljósin leiftruðu í þrjú ár

Í fyrri hluta þessa Baksviðs um aðdraganda fjármálkreppunnar er fjallað …
Í fyrri hluta þessa Baksviðs um aðdraganda fjármálkreppunnar er fjallað um viðvaranir erlendra aðila eins og þær birtust í fréttum Morgunblaðsins. mbl.is

Íslandssýkin eins og sumir erlendir fjölmiðlar eru farnir að kalla hrakfarir íslensku þjóðarinnar í hruninu á alþjóðlegu fjármálamörkuðum féll ekki óvænt af himnum ofan einn vondan veðurdag í byrjun október 2008.

Uppdráttarsýkin sem lagst hafði bæði á þjóðarlíkama og sál eins og mara hefur verið að grafa um sig um margra ára skeið. Mörg alvarleg einkenni voru komin fram fyrir löngu og á þau bent, meðal annars í þessum fjölmiðli.

Á síðum Morgunblaðsins hafa undanfarin þrjú ár verið reglulegar fréttir af áhyggjum erlendra fjármálastofnana af stöðu íslensks fjármálalífs, og í hverju þessar áhyggjur voru fólgnar. Þessari gagnrýni og ábendingum erlendis frá svo og skrifum um þær hér heima fyrir, var afar illa tekið af forsvarsmönnum íslensku bankanna framan af og væntanlega hefur allur almenningur fremur viljað hlusta á raddir þeirra en erlendra úrtölumanna.

Þessi viðbrögð eru svo sem ekkert séríslensk þótt Íslendingar hafi orðið harðar úti en margir í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu. Í löndum allt í kringum okkur er fólk að spyrja hver eigi sökina á því hvernig komið er. Margareta Pagano, viðskiptaritstjóri breska dagblaðsins The Independent, veltir spurningunni fyrir sér nýverið í blaði sínu:

„Við öll, að vissu marki," segir hún. „Síðasta áratuginn hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi leyft almenningi og fyrirtækjum að taka of mikil lán og of ódýrt. Í Bandaríkjunum buðu íbúðalánastofnanir upp á „kynningar"-veðlán með 1% vöxtum en þegar vextirnir hækkuðu höfðu margir ekki efni á að standa í skilum með afborganir – sem leiddi til svokallaðra undirmálslána. Í Bretlandi buðu breskir bankar fólki 100% lán til kaupa á fasteignum. Því voru jafnframt boðin frekari lán. Með hækkandi húsnæðisverði fannst öllum þeir hafa gnótt handa á milli og breyttu því eigin fé, sem þeir áttu í húsinu fyrir, í skuldir til að fjármagna næstu sumarleyfisferð. Sparnaðurinn hrundi. Og þegar Northern Rock-bankinn féll um koll á síðasta ári fór hrollur um allt fjármálakerfið vegna þess að hann gat ekki mætt kröfum innlánseigenda. Þannig má segja að unnt sé að kenna ríkisstjórninni um að hafa leyft skuldafjallinu að hækka, eftirlitsaðilum fyrir að hafa ekki meiri stjórn á bönkunum sem lánuðu umfram getu, og almenningi fyrir að láta undan skuldafíkn sinni."

Hljómar ekki breski hlutinn af svarinu við því hverju er um að kenna mjög kunnuglega – 100% húsnæðislán hjá bönkunum og skuldsetning fasteigna upp í rjáfur fyrir munaði af öllu tagi, óhófleg útlán bankanna heima fyrir og óheyrileg lántaka þeirra erlendis, svo og linka eftirlitsstofnana?

Fjaðrafokið út af skýrslu The Royal Bank of Scotland

Segja má að fyrstu viðvörunarbjöllurnar hafi mátt greina seinnihluta nóvembermánaðar árið 2005. Hinn 24. nóvember það ár birtist sem aðalfrétt á forsíðu Morgunblaðsins álit The Royal Bank of Scotland og Dresdner Kleinwort Wasserstein þess efnis að verðmæti bréfa íslensku bankanna hefði rýrnað og að greiningardeildir tveggja erlendra banka gagnrýndu Kaupþing banka sérstaklega. Jafnframt kemur fram að matsfyrirtækið Fitch Rating gefi bankanum langtímaeinkunnina A.

Upphaf fréttarinnar er þó að finna nokkru fyrr eða 17. nóvember þetta ár en þá birtist umfjöllun um starfsemi Kaupþings Banka í svokölluðu Check Book-fréttabréfi The Royal Bank of Scotland og hófst á þessum orðum: „Er eitthvað rotið í íslenskri fjármálastarfsemi? Það er fjarri okkur að ætla að ófrægja í skjóli orðróms, kjaftasagna eða veikra forsendna en lánsfjármarkaðir eru allt í einu farnir að gefa í skyn að fjárfestar séu allt í einu orðnir áhyggjufullir vegna viðskiptamódels eins banka þessarar litlu þjóðar."

Umfjöllun þessi fór ekki hátt í fyrstu en um viku seinna, þegar hún kom upp á yfirborðið, varð út af henni mikið fjarðafok, ekki síst af hálfu Kaupþings sem brást hart við. Fréttir Morgunblaðsins 24. nóvember sem áður er vitnað til byggðu aðallega á endurskoðaðri umsögn greiningardeildar The Royal Bank of Scotland eftir yfirferð um helstu atriði fyrri umsagnar með Kaupþingsmönnum og sitthvað var þá fært til réttari vegar. Að auki hafði nú bæst við umsögn frá greiningardeild Dresdner Kleinwort Wasserstein.

Í hinni endurskoðuðu umsögn The Royal Bank of Scotland sagði þá: „Markaðsvirði Kaupþings er 426 milljarðar króna (um 6 milljarðar evra). Landsframleiðslan á Íslandi var um 7,4 milljarðar evra í lok árs 2004. Eins og augljóst má vera er markaðsverðmæti Kaupþings ekki ívið hærra en landsframleiðslan á Íslandi. Hvað sem því líður þá höldum við því fram í ljósi talnanna og líklegra keðjuverkandi áhrifa í fjármálakerfinu að, ef svo ólíklega vildi til að einn af stóru bönkunum þremur riðaði til falls, þá gæti ríkið ekki bjargað bönkunum. Spurningin er því enn til staðar; of stór til að láta riða til falls eða of stór til að verða bjargað?"

Umsögn Dresdner Kleinwort Wasserstein var á lítið eitt öðrum nótum:

„Kaupþing hefur vaxið mjög hratt á undanförnum árum og er fyrirtækið mjög háð fjármögnun á lánsfjármarkaði. Hefðbundin innlán eru einungis 25% af útlánum og minna en 19% af heildareignum, sem er langt undir því sem almennt þekkist í Evrópu. Kjör á markaði fyrir skuldara8 áhættu (CDS, credit default swaps – skuldaálag eins og það kallast nú) hafa verið undir þrýstingi og ekki síst eftir blaðagreinina sem að framan er vitnað til. Á lánsfjármarkaði hefur ekki sömu sveiflna gætt.

Á símafundinum kvaðst fyrirtækið efast um að ef núverandi kjör á lánsfjármarkaði yrðu viðvarandi myndi slíkt hafa áhrif á hagnað, heldur gæti aðgangur að fjármagni verið mikilvægari en lánsfjárkjör þegar til lengdar léti."

Eins og áður segir brugðust Kaupþingsmenn hratt og ákveðið við gagnrýninni og Hreiðar Már Sigurðsson sagði þennan dag í viðtali að umfjöllunin bæri þess merki að Kaupþing banki hefði vaxið mjög hratt, og þar með vakið athygli. Því þyrfti að sinna upplýsingagjöf til fjárfesta meira en hingað til hefði verið gert. „Það er ljóst að við þurfum að gera enn betur. Við þurfum að upplýsa markaðinn með öflugri starfsemi."

Í frétt á fréttavef blaðsins, mbl.is, var haft eftir Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar Seðlabankans, að engar vangaveltur hefðu verið um það innan Seðlabankans hvort Kaupþing banki væri of stór til að honum yrði bjargað, riðaði hann til falls, eins og fjallað var um í mati Royal Bank of Scotland á bankanum.

Þessi umfjöllun öll saman varð þó til þess að Þórólfur Matthíasson prófessor taldi hana í viðtali sýna að athygli manna beindist að hlutverki innlendra og erlendra eftirlitsstofnana með bönkum og fjármálastofnunum. „Þessir eftirlitsaðilar eiga að tala saman og því verðum við að treysta því að þeir vinni sína vinnu," segir Þórólfur. „Þeir eiga að sjálfsögðu að fylgjast með því að áhættan sem bankar og fjárfestar eru að taka sé innan viðunandi marka, þótt fráleitt sé að halda því fram að fjárfestingarbankastarfsemi sé áhættulaus með öllu."

Uppnámið út af greiningum Barclays Capital og Credit Sight

Rúmum tveimur mánuðum síðar verður talsvert uppnám út af fréttum Morgunblaðsins af álitum erlendra greiningarfyrirtækja. Í forsíðufyrirsögn í blaðinu 1. febrúar 2006 segir frá því að erlend greiningarfyrirtæki telji stöðu íslenskra banka viðkvæma og aðalfyrirsögn segir eignatengsl óvenjulega náin hérlendis.

„Staða viðskiptabankanna þriggja er, þrátt fyrir mikinn og hraðan vöxt á undanförnum árum, veikari en ársskýrslur þeirra gefa til kynna, að mati greiningarfyrirtækjanna Barclays Capital og Credit Sights, en bæði fyrirtækin hafa nýlega gefið út skýrslur þar sem fjallað er um Íslandsbanka, KB banka og Landsbanka", segir í forsíðufréttinni.

„Í skýrslu Credit Sights er það sagt veikur blettur á íslensku bönkunum, hve mjög þeir reiða sig á erlent lánsfé, að mestu leyti í erlendri mynt. Bankarnir eru sagðir hafa notið mjög góðs lánshæfismats hjá Moody’s og Fitch en það hafi ekki nægt til að viðhalda trausti lánardrottna og bankarnir sótt inn á lánamarkaði í Asíu og Bandaríkjunum. Breikkandi fjármögnunarbil (e. corporate spread) í október og nóvember á síðasta ári, upphaflega hvað varðar KB banka en síðar varðandi hina bankana tvo, hafi í raun torveldað frekari fjármögnun þeirra með útgáfu skuldabréfa í Evrópu. Þetta undirstriki vanda bankanna sem hingað til hafa reitt sig mjög á erlent lánsfé. Það geri það að verkum að þeir séu viðkvæmari en ella fyrir breytingum á gengi gjaldmiðla og fyrir sinnaskiptum lánardrottna og fjárfesta. Þá benda greiningarfyrirtækin á það sem þau kalla óvenjulega náin og óheilbrigð (e. incestuous) eignatengsl fjárfesta og fyrirtækja hér á landi." Inni í blaðinu sjálfu er síðan langur útdráttur úr skýrslunum tveimur.

Viðbrögð talsmanna íslensku bankanna í þetta sinn voru að segja Barclays Capital og Credit Sights ofmeta veikleika íslensku viðskiptabankanna í skýrslunum, þar sem m.a. var fundið að því hve mjög bankarnir reiða sig á erlent lánsfé og lánshæfismat þeirra sagt of hátt.

Íslensku bankarnir: ekki allt sem sýnist

Röskum mánuði síðar er greiningardeild Merril Lynch á ferðinni með úttekt á íslenska bankakerfinu.

Í forsíðufrétt Morgunblaðsins hinn 8. mars er aðalfyrirsögnin um nýja skýrslu Merrill Lynch um íslenska bankakerfið: „Íslensku bankarnir, ekki allt sem sýnist", þ.e. bein tilvitnun í skýrsluna og í undirfyrirsögn segir að óvissa ríki um það hvort mjúk lending verði í íslenska hagkerfinu, svo og að eignatengsl milli banka og stærri fyrirtækja á Íslandi séu áhyggjuefni. Í upphafi fréttarinnar segir:

„Hvorki lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings né Moody’s hafa tekið nægjanlega mikið mið af kerfislægri áhættu á íslenska fjármálamarkaðinum þegar þeir hafa metið lánshæfi íslensku bankanna. Markaðurinn telur lánshæfismat íslensku bankanna vera BBB þótt þeir hafi A í lánshæfiseinkunn hjá matsfyrirtækjunum, en BBB er sú einkunn sem Standard & Poor’s myndi gefa ef það gæfi íslensku bönkunum einkunn nú," og einnig: „Sérfræðingar Merrill Lynch álíta að í raun sé eðlilegra að bera saman íslensku bankana við bankana í nýmarkaðslöndum þar sem kerfislæg áhætta í íslenska bankakerfinu eigi miklu meira sameiginlegt með fjármálamörkuðum þar frekar en með fjármálamörkuðum í Evrópu sem flestir einkennist af stöðugleika.

Þeir segja einnig að eignatengsl íslensku bankanna og stærri fyrirtækja á Íslandi séu áhyggjuefni. Bankarnir virðist oft fjárfesta með eigendum sínum eða viðskiptavinum í hlutafjárviðskiptum sem að mati Merrill Lynch séu áhættusöm þegar mið sé tekið af eigin fé þeirra. Þá séu þeir oft lánveitendur í slíkum viðskiptum."

Í framhaldsfrétt á forsíðu daginn eftir segir síðan í aðalfyrirsögn að um 1,230 milljarða kr. lán bankanna séu á gjalddaga til 2008. Í fréttinni segir:

„Að mati greiningardeildar verðbréfafyrirtækisins Merrill Lynch nema þau lán sem íslensku viðskiptabankarnir eru með á gjalddaga fram til ársins 2008 um 17,8 milljörðum dollara eða sem samsvarar nálægt 1.230 milljörðum íslenskra kr. miðað við lokagengi krónunnar í gær. Í skýrslu greiningardeildarinnar um íslenska bankakerfið er bent á að fjármögnun bankanna sé til tiltölulega skamms tíma og þeir því sérstaklega viðkvæmir ef breytingar skyldu verða á trú og skoðun markaðarins.

Að mati Merrill Lynch hafa íslensku bankarnir þó tiltæk ferli og aðgerðir sem geri þeim kleift að standa af sér hugsanlega og tímabundna erfiðleika við öflun lánsfjár. Mikilvægt sé að hafa þetta í huga þar sem aðgengi bankanna að evrópskum skuldabréfamörkuðum hafi orðið torveldara að undanförnu. Greiningardeildin bendir á að þetta tengist þó frekar þeirri staðreynd að bankarnir hafi aflað sér mikils fjármagns fyrir það tímabil sem skýrslan tekur til og því sé markaðurinn mettaður í bili. Bankarnir hafi því haft áform uppi um að selja skuldabréf til annarra svæða, s.s. Bandaríkjanna, Japans, Sviss, Ástralíu og Kanada.

Í skýrslunni segir að frá því að Fitch breytti horfum sínum um lánshæfismat íslenska ríkisins í neikvæðar horfur hafi íslensku bankarnir verið meira til umræðu og skuldaraálög þeirra hækkað. Merrill Lynch gerir ráð fyrir að dagar tiltölulega hagstæðra lánskjara fyrir íslenska banka séu taldir, þ.e. að því tilskildu að bankarnir geti fjármagnað sig með útgáfu skuldabréfa.

Þá segir í skýrslunni að á árinu 2005 hafi bæði Kaupþing banki og Landsbanki notið óvenju mikils hagnaðar af hlutabréfafjárfestingum sem hafi mótað mjög afkomu þeirra. Án þessa hagnaðar, sem Merrill Lynch dregur í efa að verði viðvarandi, líti tekjumyndun þeirra ekki jafn vel út."

Skýrslan er birt í heild sinni þennan dag og hinn næsta, 10. mars, og í seinni hluta skýrslunnar segir m.a.:

„Það er í raun ekki sérstaklega erfitt að kortleggja þær vísbendingar sem hafa má til marks um að hættur geti mögulega steðjað að í fjármálakerfum. Miklu vandasamara er að mynda sér ígrundaða skoðun á því hvort þessar vísbendingar þýði að áhætta lánveitenda eða eigenda skuldabréfa sé í raun að aukast. Þetta er sagt í ljósi þess að slíkt er langt í frá sjálfgefið. Engu að síður er ástæða til að tíunda nokkrar helstu vísbendingar aukinnar spennu í fjármálakerfum til að varpa ljósi á hvers vegna, og við fyrstu sýn, íslenskt fjármálakerfi gæti orðið undir auknum þrýstingi.

Mikilvægar vísbendingar um spennu í fjármálakerfi eru:

  • Skuldsetning og útlánaaukning til heimila
  • Skuldsetning og útlánaaukning til fyrirtækja
  • Eignaverðbólga
  • Vöxtur erlendra skuldbindinga fjármálastofnana

Að okkar mati gefa ofangreindar vísbendingar til kynna að rauð ljós blikki fyrir Ísland. "

Jákvæðari greining Morgan Stanley og bankarnir fagna

Tæpri viku síðar birtist enn ein skýrslan, að þessu sinni frá greiningardeild bandaríska fjárfestingarbankans Morgan Stanley, og í þetta sinn snöggtum jákvæðari enda höfðu hlutabréf, krónan og skuldabréf fallið skarpt mánudaginn 13. mars 2006 og það rakið til þess að markaðurinn hefði brugðist of hart við neikvæðri umfjöllun um íslensku bankana í vikunni á undan. Í forsíðufrétt daginn eftir, 14. mars, segir þannig m.a. að

„Morgan Stanley lýsi þó nokkrum áhyggjum af Kaupþingi banka og „djarfri stefnu" hans. Sérfræðingar Morgan Stanley telja að miðað við núverandi vaxtakjör séu góð kaup í skuldabréfum bæði Landsbanka Íslands og Glitnis (áður Íslandsbanka) en þeir mæla hvorki með né á móti kaupum á skuldabréfum Kaupþings banka."

Í viðtali við Morgunblaðið er Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri spurður hvernig hann sjái umræðuna á næstunni fyrir sér og hvort hið versta í neikvæðri umræðu um stöðu bankanna sé að baki. Eiríkur segir erfitt að svara því. „Ég dreg hins vegar þá ályktun að aðstæður okkar banka séu lakari núna en þær voru og að þeir muni hægja á ferðinni, bæði hvað varðar útlánastarfsemi og fjárfestingar þeirra. Ég held að þeir geti ekki þanið út sinn efnahagsreikning eins ört og þeir hafa gert upp á síðkastið," segir Eiríkur og tekur fram að hann sjái í sjálfu sér enga hættu í því fólgna þó bankarnir hægi aðeins á ferðinni.

Eiríkur er spurður hvort hann telji ástæðu til að bregðast með markvissari hætti við þeirri neikvæðu umræðu sem verið hefur um íslenskt fjármálalíf í norrænum fjölmiðlum að undanförnu. „Að mínu mati er fyrst og fremst nauðsynlegt að upplýsa vel og það á bæði við um bankana sjálfa, þ.e. að þeir geri grein fyrir sinni stöðu á skýran, góðan og hreinskilinn hátt, og svo á það líka við um okkur, þ.e. Seðlabankann, sem og stjórnvöld, að við gerum það sem við getum til þess að lýsa stöðunni eins og við þekkjum hana best," segir Eiríkur.

Aukinn skilningur á íslensku bönkunum

Viðbrögð forsvarsmanna bankanna sjálfra við skýrslu Morgan Stanley voru á þá lund að í þessari skýrslu gætti aukins skilnings á bönkunum og umræðan væri að ná meira jafnvægi eftir neikvæða umræðu erlendis um nokkurt skeið.

Seinna á árinu sendi Morgan Stanley frá sér aðra skýrslu um íslensku viðskiptabankana þrjá; Landsbankann, KB banka og Glitni. Skýrsluhöfundar segjast þar sannfærðir um að ekki sé hætta á fjármálakreppu á Íslandi, eftir að hafa farið í gegnum nýlega skýrslu hagfræðinganna Tryggva Þórs Herbertssonar og Frederic S. Mishkin um efnahagsmál á Íslandi, sem þeir sömdu fyrir Viðskiptaráð Íslands.

Fram kemur að Morgan Stanley mælir með kaupum á fyrsta flokks skuldabréfum (e. tier 1) allra bankanna og segir kauptækifæri á meðan ávöxtunarkrafa bréfanna lækki ekki enn frekar með dvínandi áhyggjum af efnahagsástandi Íslands.

Eftir þetta fór heldur að draga úr fyrirferð skýrslna greiningardeilda erlendra fjármálafyrirtækja um leið og þeim fór fækkandi, en meira fór aftur fyrir umsögnum erlendu lánshæfismatsfyrirtækjanna sem forsvarsmenn íslensku bankanna höfðu jafnan sagt vera marktækari enda þekktu starfsmenn matsfyrirtækjanna mun betur innviði bankanna og aðstæður hér á landi. Reyndar fór gagnrýni á matsfyrirtækin erlendis vaxandi frá upp úr miðju ári 2007 fyrir að hafa brugðist í að benda á vandræðin á húsnæðislánamarkaðinum, einkum í Bandaríkjunum.

Jafnframt urðu umsagnir og niðurstöður matsfyrirtækjanna hér heima fyrir sveiflukenndari og neikvæðari bæði varðandi stöðu bankanna og ríkissjóðs. Þegar kom fram á þetta ár komst fall hlutabréfamarkaðar, ekki síst hrun FL Group, og krónunnar, meira í sviðsljósið, barátta bankanna við að endurfjármagna sig og aukin áreitni erlendra vogunarsjóða.

Í bakgrunni var þó jafnan vaxandi ókyrrð á erlendum fjármálamörkuðum, lánsfjárþurrð og frost á millibankamarkaði sem ef til vill kristallaðist fyrir alvöru í falli og ríkisvæðingu Northern Rock-bankans breska. Og vissulega sáu síðan fáir fyrir gjaldþrot bandaríska fjárfestingarbankans Lehman Bothers á dögunum – en eins og rakið hefur verið hér á undan höfðu ótal viðvörunarljós kviknað og verið látin leiftra a.m.k. á síðum þessa blaðs áður en að því kom að íslenska fjármálakerfið hrundi eins og spilaborg.

 
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK