Doktor Dómsdagur fær uppreisn æru

Doktor Dómsdagur eða Nouriel Roubini
Doktor Dómsdagur eða Nouriel Roubini

Hagfræðin hefur til skamms tíma ekki endilega verið sú grein sem í mestum hávegum er höfð í fræðaheiminum, hvorki erlendis né hérlendis. Hins vegar hefur vegur hennar farið vaxandi eftir því sem harðnar á dalnum í hagkerfum heimsins og óveðurskýin hrannast upp - enda hagfræðin ekki verið kölluð eymdarvísindi út af engu.

Nýir spámenn í þessum fræðum hafa sprottið fram í aðdraganda kreppunnar.  Hér heima fyrir hafa hagfræðingar á borð við Gylfa Zöega og Jón Daníelsson kveðið sér hljóðs svo eftir er tekið - en erlendis þeysist hagfræðingurinn Nouriel Roubini milli fyrirlestrarsalanna og er hann í slíkri eftirspurn að helst má líkja við kvikmyndastjörnu.

Samt hefur hann fengið uppnefnið Doktor dómsdagur.

Ástæðan er sú að nokkur undanfarin ár hefur Roubini spáð því að fjármálaheimurinn væri á heljarþröm, og nú skyndilega hefur það gerst að nær allir spádómar hans hafa tekið upp á því að rætast.

Meðan sólin skein hvað hæst í heimi hagvísinda gátu aðrir starfsbræður hans í greininni hent gaman að honum og dómsdagsspám hans um yfirvofandi efnahagshrun. Þeir höfðu að engu viðvarnir Roubini um að undirmálslánaósköpin myndu valda kollsteypu á fjármálamörkuðum. Þeir vildu ekki trúa þeirri skoðun hans að fasteignalánasjóðirnir Fannie Mae og Freddie Mac væri að fara í þrot, og fjárfestingabankarnir færu yfir um samhliða því að heimurinn allur félli í djúpa kreppu.

Allir þessir spádómar hafa komið á daginn og menn eru hættir að hlæja.

Hvað telur Nouriel Roubini að gerist næst? Hann var á ráðstefnu í London í síðustu viku og þar spáði hann því að næst færu hundruð vogunarsjóða á hausinn og kauphallir yrðu að loka fyrir viðskipti - kannski allt upp í viku - til að hamla gegn þeirri örvæntingarsölu sem nú herjar á heiminn.

Hvað gerðist ekki - kauphallirnar bæði í New York og Moskvu urðu að loka fyrir viðskipti um tíma daginn eftir.

Hver er þessi spámaður? Nouriel Roubini fæddist 29. mars 1958 í Istanbul, sonur íranskra gyðinga. Fjölskyldan fluttist til Teheran þegar hann var tveggja ára að aldri, síðan til Tel Aviv í Ísrael og loks til Ítalíu þar sem hann óx úr grasi og stundaði háskólanám. Hann fluttist til Bandaríkjanna til að stunda doktorsnám við Harvard-háskóla árið 1988.

Hann er nú bandarískur ríkisborgari, en talar ensku, ítölsku, hebresku og persnesku mállýskuna farsi. Í Harvard var meðal leiðbeinenda hans, hagfræðingurinn heimsfrægi Jeffrey Sachs, sem segir hann hafa verið óvenju hæfileikaríkan og með bæði góðan stærðfræðigrunn og tilfinningu fyrir grundvallaratriðum hagfræðinnar, að því er Wikipedia, alfræðiritið á netinu, hefur eftir grein í New York Times.

Að námi loknu starfaði hann m.a. við bandaríska fjármálaráðuneytið og einnig fyrir efnahagsráð Bandaríkjaforseta í tíð Clintons. Hann er nú prófessor við Stern School of Business í New York-háskóla. Hann hafði orð á sér að vera afspyrnu snjall en þegar hann fyrir 3-4 árum fór að spá heimskreppunni á bloggi sínu voru skoðanir hans talsvert á skjön við umhverfið - með góðæri svo langt sem augað eygði og endalausum vexti stöðugt flottari fjármálaafurða.

Roubini var samt tiltölulega óþekktur í röðum hagfræðinga allt þar til hann var með innlegg á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) í september árið 2006 og eftir að hafa þrumað dómsdagsspá sína yfir salnum hlaut hann uppnefni sitt, Doktor Dómsdagur, segir í grein um hann á vefsíðunni Timeonline sem hér er að nokkru stuðst við.

Sagt fyrir um kreppuna

Það sem hann sagði fundarmönnum þarna var að kreppan sem kæmi einu sinni á mannsaldri væri í vændum, húsnæðisbóla myndi kollvarpa efnahag Bandaríkjanna á sama tíma og olían færi upp úr öllu valdi, neytendur hættu að eyða og landið myndi lenda í djúpum öldudal samdráttar.

Hrunið á húsnæðismarkaðinum myndi hrinda af stað efnahagssamdrætti þar sem billjónir dala af húsnæðistryggðum verðbréfum reyndust einskis virði. Höggbylgjan myndi setja banka á hliðina sem og aðrar stórar fjármálastofnanir á borð við Freddie Mac og Fanny Mae, stærstu húnsnæðislánabanka Bandaríkjanna.

„Eftir þetta held ég að við þurfum öll að fá okkur einn sterkan,“ sagði fundarstjórinn að loknu erindi Roubini og allur salurinn hló.

Almenningi þykir jafnan talsvert til Nostradamus-legra spádóma koma en hagfræðingar vilja tölur og jöfnur. Anirvan Banerji, hagfræðingur hjá hagrannsóknarstofnun í New York, lýsti upplifun margra á fyrirlestri Roubini á fundinum, þegar hann í andsvari taldi vanta allar stærfræði- og tölulegar forsendur í líkan Roubini og það meira og minna byggt á einhverskonar tilfinningu. Og framan virtist Roubini hafa rangt fyrir sér. Hrunið varð ekki og jafnvel í loks síðasta árs voru horfurnar kannski ekki góðar en engar hamfarir fyrirsjáanlegar.

Í febrúar á þessu ári skrifaði Roubini færslu inn á bloggið sitt með fyrirsögninni: Vaxandi hætta á kerfislægu fjármálahruni: 12 skref að fjármálahamförum."

Þar var lýst í smáatriðum hvernig hrun húsnæðismarkaðarins myndi leiða til gífurlegs taps fjármálageirans, einkum fjármálatólum þeim sem notuð eru til að tryggja verðbréfalán. Þarna var varað við því að bankar á landsvísu gætu farið á hausinn og eftir því sem vandamálin dýpkuðu gætu fjárfestingarbankar og vogunarsjóðir farið yfir um.

Þegar svo skriðan fór af stað eftir uppskrift Roubini kom það honum á óvart hversu hratt það gerðist. Hann segist hins vegar hafa getað séð þetta fyrir vegna þess hvernig hann nálgaðist viðfangsefnið heilstætt og með því að vinna utan við hefðbundinna markalína hagfræðinnar. Sem rannsakandi fjármálakreppu um langt skeið skoðaði hann bæði sögu og stjórnmál tengd síðustu kreppum ásamt hagfræðilíkönunum.

Kreppur spretta ekki úr engu

„Þessar kreppur spretta ekki upp úr engu,“ segir hann, „heldur má alla jafnan rekja þær til aukningar í ýmis konar eigna- og lánabólum, þjóðhagfræðilegri stefnumótun og öðrum veikleikum. Þegar maður leggur þetta allt saman þá hittir maður kannski ekki alveg á réttan tíma en maður fær vísbendingar um að stundin nálgist óðfluga.“

Roubini telur að of margir fræðimenn hafi lokað augum fyrir því sem lá í loftinu vegna þess að þeir hafi verið blindaðir af eigin hagsmunum. „Ég get haft rétt fyrir mér, eða rangt fyrir mér. En ég hef aldrei stundað verðbréfaviðskipti, hvorki selt né keypt eitt einasta verðbréf á ævi minni. Ég reyni að vera eins hlutlægur og ég get.“

Hver ber sú hlutlægni hans okkur næst? Eru engin teikn um að kreppunni sé að ljúka?

„Í hvert skipti sem áföllin hafa dunið yfir á síðustu sex mánuðum, hefur fólk sagt að þessi ósköp tákni að botninum sé náð. Þetta var sagt eftir Bear Stearn, eftir Fannie og Freddie, eftir AIG (bandaríska tryggingarisann) og eftir 700 milljarða dala björgunaraðgerðina. Botninum átti alltaf að vera náð en botninum hefur enn ekki verið náð."

Doktor Dómsdagur er enn við sama heygarðshornið. Allar aðgerðir hingað til hafa gengið of skammt og ekki dugað til að róa fjármálaheiminn. „Þetta hefur verið sláturtíð dag eftir dag. Markaðirnir eru lamaðir, gengnir af göflunum," segir hann.

Hagfræðilögmálin eru hætt að virka, ríkisstjórnir heims munu verða að leggja í enn umfangsmeiri björgunaraðgerðir, og Bandaríkin munu horfa fram á „efnahagsstöðnun til margra ára.“

Vissulega er spáin ekki vænleg og verst er að geta ekki vísað henni til föðurhúsanna sem fjarstæðu.

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir