Bankarnir vildu ekki fara í stríð

„Við vildum ekki standa í stríði við okkar eigin stjórnvöld,“ segir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, þegar hann er spurður hvers vegna bankinn hafi á sínum tíma dregið til baka kæru til fjármálaráðherra vegna ákvörðunar Ársreikningaskrár um að synja bankanum um að gera upp í annarri mynt en krónu.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, sagði á hluthafafundi félagsins í fyrradag að flytja hefði mátt höfuðstöðvar Kaupþings strax í kjölfar þess að bankanum var neitað um að gera upp í annarri mynt en krónu. Hann sagði það stærstu mistök sín að hafa ekki beitt sér fyrir því að höfuðstöðvarnar yrðu færðar út.

Haustið 2007 var Kaupþing eitt fjölmargra íslenskra hlutafélaga sem sóttu um að fá að gera upp reikninga sína í evrum frá og með 1. janúar á þessu ári. Ársreikningaskrá hafnaði umsókn bankans í kringum síðustu áramót, en hún taldi að Kaupþing uppfyllti ekki skilyrði gildandi laga. Ársreikningaskrá leitaði álits Seðlabankans í aðdraganda ákvarðanatökunnar, lögum samkvæmt, en var í engu bundin umsögn Seðlabankans í ákvörðun sinni.

Verulegur hluti tekna erlendis

Í lögum um ársreikninga koma fram skilyrði sem hlutafélög þurfa að uppfylla til að þeim sé veitt heimild til að gera upp í annarri mynt. Þeim er veitt heimild ef þau eru með meginstarfsemi sína erlendis eða eru hluti erlendrar samstæðu þar sem starfrækslugjaldmiðill er annar en íslensk króna, ef félög eiga erlend dótturfélög eða hlutdeild í erlendum félögum og meginviðskipti eru við þessi félög, þau hafa meginstarfsemi sína hér á landi en eru með verulegan hluta tekna sinna frá erlendum aðilum í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum eða ef þau hafa verulegan hluta fjárfestinga sinna í erlendum fjárfestingarvörum og skuldir þeim tengdar í erlendum gjaldmiðlum. Félögin þurfa aðeins að uppfylla eitt framangreindra skilyrða til að þeim sé veitt heimild.

Seðlabankinn á móti

Seðlabankinn var andsnúinn því að fjármálafyrirtækjum yrði gert kleift að gera upp í evrum. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var kæra Kaupþings dregin til baka á sínum tíma að beiðni fjármálaráðherra. Hreiðar Már vill ekki staðfesta það. Hann segir að bankinn hafi ekki viljað fara í hart við stjórnvöld, en treystir sér ekki til þess að svara því hvort það hafi verið mistök að draga kæruna til baka.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK