Varpa þarf ljósi á ýmislegt sem gerðist í aðdraganda hrunsins

Hannes Smárason.
Hannes Smárason. mbl.is/Golli

Hannes Smárason, fyrrum forstjóri  FL Group, sagði í Markaðnum á Stöð 2 í dag, að varpa þurfi betra ljósi á ýmsa hluti sem urðu í aðdraganda bankahrunsins. Meðal annars hefði Seðlabanki Evrópu tekið afdrifaríkar ákvarðanir sem höfðu mikil áhrif á lausafjárstöðu íslensku bankanna en bankarnir voru í umtalsverðum endurhverfum viðskiptum við þann seðlabanka.

Hannes sagði að Seðlabanki Evrópu hefði fært niður tryggingar sem bankarnir lögðu fram, m.a. í ríkisskuldabréfum, þannig að bankarnir þurftu að leggja fram nýjar tryggingar. Sagðist Hannes velta því fyrir sér hverra erinda seðlabankinn hefði verið að ganga.  Hann nefndi einnig að upplýsa þyrfti hvers vegna Seðlabanka Íslands hefði ekki verið boðið að vera með í viðskiptum við bandaríska seðlabankann eins og hinum Norðurlöndunum.

Einnig þurfi að skoða flæði gjaldeyris og hvers vegna gengi íslensku krónunnar veiktist jafn mikið og raun bar vitni í vor og sumar en gjaldeyriskreppan hefði verið komin á Íslandi löngu fyrir bankahrunið. M.a. hefði verið mjög erfitt að skuldbreyta íslenskum lánum í erlend lán og erfitt að fá gjaldeyri gegnum Seðlabankann vegna þess að gengið hefði mjög hratt á hans birgðir.

Þá sagði Hannes, að allir væru nú að séu að reyna að bjarga því sem bjargað verði. Þá séu menn í fyrirtækjarekstri  nokkurn veginn sammála um að framundan sé langt aðlögunartímabil og framvindan muni ráðast af þeim ákvörðunum, sem teknar verða nú á næstunni. Ákveði Íslendingar t.d. að ganga ekki í Evrópusambandið megi ætla að það taki 10-20 ár að byggja upp traust á Íslandi á erlendum lánamörkuðum.

Um FL Group sagði Hannes, að hann sæi eftir ýmsum ákvörðunum sem þar voru teknar. M.a. hefði eftir á að hyggja átt að stækka fyrirtækið hægar og minnka það hraðar en gert var.  

Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, sagði í þættinum að hann teldi mjög mikilvægt að lýsa því yfir að íslensk stjórnvöld stefndu að því að sækja um aðild að  Evrópusambandinu. Hann sagðist telja algert óráð, að stefna að því að tengjast norskri krónu með einhverjum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK