Erlendir vilja eiga banka

Fulltrúar erlendra banka hittu skilanefndir á formlegum fundum í síðustu …
Fulltrúar erlendra banka hittu skilanefndir á formlegum fundum í síðustu viku.

Fulltrúar erlendra kröfuhafa Landsbanka, Kaupþings og Glitnis vilja að eignarhaldsfélag verði stofnað um eignir gömlu bankanna og að kröfum þeirra á hendur bönkunum verði breytt í hlutafé í félaginu. Þannig myndu nokkrir af stærstu bönkum heims koma að bankarekstri á Íslandi sem eigendur í íslenskum bönkum.

Þeir telja það útfærsluatriði hvort ein af þeim eignum yrðu nýju bankarnir en aðalatriðið sé að halda þeim gömlu í rekstri til að hámarka virði eigna þeirra. Eigendur yrðu þá kröfuhafarnir og mögulega íslenska ríkið.

Erlendu kröfuhafarnir fengu loks að hitta skilanefndir gömlu bankanna í vikunni á formlegum fundum. Á þessum fundum var kröfuhöfunum gerð grein fyrir því hver staðan í þrotabúum bankanna væri og farið var yfir fyrstu vísbendingar um verðmæti eignanna sem eftir eru í gömlu bönkunum. Heimildir Morgunblaðsins herma að í framhaldinu vonist kröfuhafarnir til þess að þeir fái að vera meira með í ráðum en til þessa um hvernig næstu skref verði stigin.

Vilja að virði eigna haldist sem hæst

Þegar félög fara í þrot við venjubundnar aðstæður þá taka kröfuhafar yfir eignir búsins. Skiptastjóri sér síðan um að kröfunum verði skipt upp á milli þeirra í samræmi við kröfur þeirra. Í þrotabúum gömlu bankanna er þessu öðruvísi farið. Þar voru allar eignir færðar inn í nýja banka í eigu ríkisins til að tryggja innlendar innistæður og áframhaldandi innlendan bankarekstur. Síðan mega óháðir matsaðilar taka sér allt að þrjá mánuði til að verðmeta þessar eignir, halda eftir tryggingum fyrir innistæðunum og setja afganginn sem eitt skuldabréf inn í þrotabú gömlu bankanna.

Þetta telja erlendu kröfuhafarnir ekki góða leið. Þeir vilja heldur að rekstri bankanna verði haldið við þannig að eignir gömlu bankanna rýrni ekki að verðgildi. Það telja þeir hægt að gera með því að þeir verði á meðal eigenda þeirra.

Telja hagsmuni sína þá sömu og Íslands

Kostirnir sem erlendu kröfuhafarnir sjá við þessa lausn eru augljósir, þeir hámarka virði eigna sinna. Þeir hafa áhyggjur af því að ef haldið verði áfram á þeirri leið sem nú er fetuð þá verði eignirnar seldar langt undir raunvirði og kröfuhafar fái lítið upp í kröfur sínar. Í því sambandi benda þeir á að skuldabréf í íslenskum bönkum séu að seljast erlendis á 3 til 7 prósent af heildarandvirði þeirra. Það þýði að skuldatryggingaálag bankanna sé 93 til 97 prósent og augljóst að það verði ómögulegt fyrir Ísland að taka lán erlendis frá á slíkum kjörum. Þeir telja því að besta lausnin fyrir þá sé líka besta lausnin fyrir Ísland. Með því að stórir erlendir bankar eignist í þeim íslensku opnist fyrir gjaldeyrisviðskipti, lánalínur og annað greiðsluflæði auk þess sem eignarhald á bönkunum verði dreift. Því hafi þeir beinan fjárhagslegan ávinning af því að íslenskt efnahagslíf nái sér sem fyrst.

Erlendu kröfuhafarnir nefna sem dæmi að ein þeirra lausna sem talað sé um sem lykil að því að koma Íslandi út úr þeim hremmingum sem nú standa yfir sé uppbygging frekari stóriðju. Til þess að stóriðja geti risið þurfi hins vegar að virkja. Orkufyrirtæki landsins fjármagna sínar virkjunarframkvæmdir fyrst og síðast með erlendum lánum. Eins og staðan er í dag eru allar lánalínur til þeirra lokaðar. Orkufyrirtækin geta því ekki staðið við þær skuldbindingar sem þau hafa þegar tekið á sig og hvað þá tekist á við nýjar. Þessa mynd mætti síðan yfirfæra á fleiri geira.

Afdrifarík mistök með neyðarlagasetningu

Samhljómur var á meðal þeirra fulltrúa erlendra kröfuhafa sem Morgunblaðið ræddi við að setning neyðarlaganna þann 6. október hefði verið afleikur af hálfu íslenskra stjórnvalda. Með þeim hefðu þau gert tvenn afdrifarík mistök: þjóðnýtt eignir sem þau áttu ekki og breytt leikreglum eftir á. Þar eiga þeir við að íslenska ríkið hafi leyst til sín eignir sem í raun voru eignir lánadrottna íslensku bankanna og með því að gera íslenskar innistæður að forgangskröfum í þrotabú hefðu þeir mismunað kröfuhöfum gróflega.

Afstaða erlendu kröfuhafanna er því sú að þegar bankar fari í þrot sé það ekki landið sem veiti bankanum starfsleyfi sem eigi eignir hans heldur þeir aðilar sem fjármögnuðu starfsemi bankanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK