Skuldar þúsund milljarða

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri á fundi Viðskiptaráðs
Davíð Oddsson, seðlabankastjóri á fundi Viðskiptaráðs mbl.is/Kristinn

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, spurði á fundi Viðskiptaráðs í morgun hvers vegna almenningur fái engar gagnlegar upplýsingar um hvað gerðist. Segir hann að bankaleynd eigi ekki við og spurði hvers vegna það hafi ekki verið upplýst að einn aðili skuldaði viðskiptabönkunum samanlagt eitt þúsund milljarða króna og þá sé einungis talað um viðskiptabankana  þrjá, ekki sparisjóðina og lífeyrissjóðina. Þetta sé eitthvað sem stjórnendur bankanna hafi vitað og eftirlitsaðilar en ekki samt séð ástæðu til þess að gera neitt í málinu.

„Hvernig ósköpunum gat þetta gerst og hvaða heljartök hafði þessi aðili á íslensku bönkunum?" spurði Davíð. Ef erlendum bönkum hefði verið þetta ljóst þá hefði allt hrunið hér. Ef allir frjálsir fjölmiðlar hefðu ekki verið í eigu eigenda bankanna þá hefði kannski verið upplýst um málið. Menn virðast ekki hafa lært neitt og eru jafn hræddir og fyrr, sagði Davíð.

Sagði hann að þeir sem nú gera hróp að seðlabankastjórum hafi þagað  þunnu hljóði þegar Seðlabankinn reyndi að vara við því sem gæti gerst. Davíð segir bankastjóra Seðlabankans vonast til þess að rannsakað verði í kjölinn hvað gerist.  Davíð segist krefjast þess, að rannsakað verði það sem gerðist og hann muni segja af sér ef í ljós komi að hann hafi brugðist.

Davíð sagði að reynt hafi verið að klína því á hann, að það hafi verið orð hans í Kastljósi sem höfðu þau áhrif að hryðjuverkalög voru sett á Ísland. Segir hann að ekki hafi verið allt birt sem fram fór og segist vænta þess að fleiri samtöl verði birt og þá komi í ljós hvað olli því að lögin voru sett á Ísland. Hann viti hvað komi þar fram.

„En við þau tímamót sem nú hafa orðið, þegar talað er um rannsóknir og að velta eigi við hverjum steini, af hverju er þá ekkert upplýst um hvers vegna bankarnir hrundu?

Af hverju fær almenningur, sem á að borga brúsann, og sá brúsi er engin smásmíði, engar gagnlegar upplýsingar þótt allt ætti nú að vera á borðinu hjá þeim sem hafa mál hinna föllnu banka í höndunum og allt að blasa við eins og opin bók.

Niðurfelling forráðamanna Kaupþings á ábyrgðum sínum og annarra hafði legið fyrir vikum saman án þess að nokkuð væri um það upplýst. Það var ekki fyrr en hneykslaðir starfsmenn láku þessum upplýsingum út sem þær urðu almannaeign. Og síðan hefur ekkert verið upplýst, hvernig því máli verður fylgt eftir. Ábendingar sem bárust um að kalla til lögreglu strax í upphafi hafa ekki fengið brautargengi.

Eru menn að bera fyrir sig bankaleynd í þessu sambandi? Bankaleynd á ekki lengur við hvað þessi atriði varðar. Sú reiði sem kraumar í þjóðfélaginu og hægt er að beina í ýmsar áttir af áróðursmaskínum er ekki síst kraumandi vegna þess að það er ekki verið að upplýsa almenning um eitt eða neitt. Af hverju hefur það ekki verið upplýst að einn aðili skuldaði eitt þúsund milljarða í íslenska bankakerfinu og þá er eingöngu verið að tala um viðskiptabankana þrjá, ekki sparisjóðina, lífeyrissjóðina eða ýmsa aðra aðila, sem viðkomandi skuldaði né erlendar skuldir sama aðila.

Eftir að bankaeftirlitið var fært frá Seðlabankanum gat hann ekki aflað sér upplýsinga um slíkt. Hann gat ekki vitað það. En það vissu aðrir, á því getur ekki verið neinn vafi. Eitt þúsund milljarða skuld eins aðila í íslenska bankakerfinu er erfitt að skilja, jafnvel svo erfitt að menn leiða hana hjá sér. En það má ekki víkja sér undan að horfa á þessa mynd. Einn aðili skuldaði með öðrum orðum bönkunum þremur um eða yfir eitt þúsund milljarða króna. Það er hærri fjárhæð en allt eigið fé gömlu bankanna saman lagt.

Bankastjórarnir sem lánuðu hver fyrir sig hlutu að vita að samanlagt væri dæmið þannig. Vegna þess að þeir horfðu ekki aðeins á lánsfé eigin banka, heldur fengu þeir öll gögn vegna veðtöku áður en stærstu einstöku lán bankans voru veitt, eða það skyldu menn ætla. Og eftirlitsaðilar hljóta að hafa vitað það líka og hafa því teygt sig með ólíkindum langt til að finna út að sami aðili væri óskyldur sjálfum sér við þessar aðstæður. Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst? Hvaða heljartök hafði viðkomandi á bönkunum og öllu kerfinu?

Það er algerlega víst að ef erlendum viðskiptaaðilum bankanna hefði verið þessi staða ljós, hefðu öll viðskipti við bankakerfið þegar verið stöðvuð erlendis frá, og bankarnir hefðu í kjölfarið hrunið. Er hugsanlegt að umræða hefði vaknað í þjóðfélaginu um þessi atriði og önnur, ef allir frjálsir fjölmiðlar, sem er reyndar skondið orð í þessu samhengi, hefðu ekki verið í höndunum á eigendum bankanna?

Og það hefur verið upplýst að nýju bankarnir haldi áfram háttum gömlu bankanna og láti menn sem skulda yfir þúsund milljarða í bankakerfinu ekki í gjaldþrot, en gangi fljótt og vel að Jóni og Gunnu, sem eru þó nú orðin eigendur bankanna á ný. Menn virðast ekkert hafa lært eða eru jafn hræddir og fyrr.

Ég ítreka að Seðlabanki Íslands hvetur eindregið til þess að hlutur hans í bankahruninu, sem ýmsir vilja gera sem mestan verði rannsakaður. Sú rannsókn verður einföld. Starfsmenn Seðlabankans hafa ekkert að óttast. En það er hlálegt að þrátt fyrir þau hróp sem skipulögð eru og gerð eru að þessari stofnun, þeirri stofnun sem ein varaði við þróuninni á annað ár, þá er það svo að sennilega ætti Seðlabanki Íslands að vera lang lang aftastur í rannsóknarþarfarröðinni. Það er meginkrafa að það sé upplýst hver hin raunverulega staða bankanna var.

Það rannsóknarferli, sem þegar hefur verið kynnt, er með öllu óframbærilegt og ófullnægjandi. Það er allt að því skondið að sjá tilburðina í öllum þeim skipulega áróðri og herferð sem fram hefur farið, m.a. af hálfu þeirra sem mesta ábyrgð bera á bankahneykslinu.

Reynt hefur verið að læða því að almenningi að orð sem féllu í viðtali við mig í Kastljósi, þegar ég reyndi að skýra á mannamáli í fyrsta sinn fyrir almenningi, hvað væri að gerast, að þau hefðu orðið til þess að bresk yfirvöld hefðu sett hefndarverkalög á Ísland og fryst eignir Landsbankans. Þetta er endurtekið í síbylju, síðast í Stöð 2 í gær með mjög óskammfeilnum hætti, en það merkilega er að Bresku yfirvöldin hafa aldrei haldið þessu fram, aldrei minnst á þetta einu einu orði, þótt vitað sé að bæði þeir Gordon Brown og Alistair Darling séu miklir áhugamenn um Kastljósið og horfi á það nánast á hverju kvöldi!

Þeir hafa hins vegar skýrt hvers vegna þeir gripu til þessa óyndisúrræðis. Það hafa ekki öll samtöl verið birt hvað þessi mál varðar og þess vegna er auðveldara að bera fram tilbúnar sakir og koma þeim inn hjá trúgjörnu fólki í gegnum þá fjölmiðla sem “grímulaust hafa verið misnotaðir í mörg ár” eins og það var orðað af sjónvarpsmanninum. Ég hef engar áhyggjur af þessu vegna þess að þegar málin verða rannsökuð, þá hljóta fleiri samtöl að verða birt. Mér er kunnugt um efni þeirra og mér er kunnugt um hvað í raun réði afstöðu breskra yfirvalda," sagði Davíð á fundi Viðskiptaráðs.

Ræða Davíðs Oddssonar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir