Taldi sig ekki þurfa að upplýsa ráðherra

Baldur Guðlaugsson.
Baldur Guðlaugsson.

„Fjármálaráðuneytið hefur ekkert með málefni bankanna að gera, það er ekki bankamálaráðuneyti,“ segir Baldur Guðlaugsson, aðspurður hvers vegna hann hafi ekki upplýst Árna Mathiesen fjármálaráðherra um hlutabréfaeign sína í Landsbankanum.

Veltur á eðli fundarins

Baldur var fulltrúi fjármálaráðherra á fundi í London hinn 2. september sl. þar sem rædd voru málefni útibús Landsbankans, fyrirtækis sem hann átti hlut í. Aðspurður hvort það hefði ekki verið æskilegt að hafa upplýsingar um hlutabréfaeign hans uppi á borðum þegar fundurinn var haldinn, segir Baldur svo ekki vera, vegna eðlis fundarins. „Það veltur á því hvað var til umræðu og í hvaða samhengi og hvaða þýðingu það hefur fyrir bankann. Fundurinn var haldinn á pólitískum forsendum. Fundurinn var haldinn til þess að liðka fyrir því að innlánsreikningar flyttust úr útibúi í dótturfélag. Var það slæmt að það yrði gert eða ekki?“

Spurður hvort efni fundarins hefði haft áhrif á verðmyndun bréfa bankans ef almenningur hefði haft vitneskju um fundinn, þar sem Icesave-reikningarnir gegndu jafnstóru hlutverki í fjármögnun Landsbankans og raun ber vitni, segir Baldur svo ekki vera. „Fundurinn snerist ekki um Icesave, heldur þennan ákveðna hlut, flutning reikninganna. Það höfðu þá þegar verið umræður í breska þinginu um stöðu innlánsreikninga erlendra banka á þeim tíma.“

Viðskiptaráðherra svari

Landsbankinn gat á þessum tíma ekki fært eignir út í samræmi við kröfur breska fjármálaeftirlitsins. Aðspurður hvort sú staðreynd hafi ekki veitt vísbendingar um stöðu bankans segir Baldur að í gangi hafi verið ákveðin vinna um færslu reikninganna. „Ég held samt að það sé best að leyfa viðskiptaráðherra að útskýra nákvæmlega hvað fór fram á fundinum,“ segir Baldur.

Þegar Baldri er bent á að um miðjan september hefðu birst fréttir um að breskir sparifjáreigendur treystu þeim íslensku betur og bankastjórar Landsbankans fullyrt að innlánsreikningarnir gegndu lykilhlutverki í fjármögnun Landsbankans, segir Baldur að útstreymi af reikningum hafi „komið og farið“. Hann segir það jafnframt hafa legið fyrir að útstreymi af Icesave-reikningunum hafi hafist fyrir 2. september.

„Um svipað leyti og ég seldi bréfin, sem var 17. september, komu fram upplýsingar um að Icesave-deilan væri að leysast,“ segir Baldur. Hann vill hins vegar ekki gefa upp hvaða upplýsingar það séu.

Óheppilegt að eiga í bankanum

„Áður en ég seldi lá tvennt fyrir. Ég hafði haft ráðagerð í langan tíma um að selja í Landsbankanum. Annars vegar vegna þess að ég taldi ekki heppilegt að eiga í Landsbankanum eftir að málefni bankanna voru komin svo mikið í umræðuna. Það var augljóst að umsvif bankanna myndu minnka og arðsemi þeirra einnig. Þetta hafði markaðurinn í rauninni staðfest með gengi bréfanna. Ég hafði beðið með að selja í dálítinn tíma því ég vildi vera algjörlega viss um að ég hefði ekki neinar upplýsingar sem markaðurinn hafði ekki.“
Í hnotskurn
» Þegar Baldur var inntur eftir hugtakinu innherjaupplýsingar, í reglugerð sem sett var með stoð í lögum um verðbréfaviðskipti, og hvort málefni fundarins félli hugsanlega þar undir, spurði hann blaðamann hvort hann væri blaðamaður eða fulltrúi ákæruvaldsins.
» Baldur segir að ákveðnir einstaklingar hafi stýrt umræðunni um mál hans og umfjöllunin í fjölmiðlum sé af pólitískum toga. Hann áréttar að hann hafi engar upplýsingar haft, við sölu bréfanna, sem markaðurinn hafði ekki.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK