Lárus Welding: Rangt að reglur hafi verið brotnar

Lárus Welding.
Lárus Welding. mbl.is/Kristinn

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, segir í yfirlýsingu, að það sé rangt, sem haldið er fram í fréttaskýringu í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, að verklagsreglur við lánveitingar hafi verið brotnar hjá bankanum. Um lánveitingar til tengdra aðila gildi strangar reglur og þeim hafi verið  fylgt í einu og öllu í hans forstjóratíð. 

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

„Sem fyrrverandi forstjóri gamla Glitnis banka hf. harma ég að Morgunblaðið skuli birta trúnaðarupplýsingar er varða viðskiptavini bankans og að trúnaður við þá hafi verið brotinn. Í greininni eru rangfærslur og þar eru dregnar rangar ályktanir út frá takmörkuðum upplýsingum. Ég tek fram að við vinnslu þessarar fréttar var ekki haft samband við mig.
 
Umfjöllun um málefni banka og viðskiptavini þeirra er trúnaðarmál sem lýtur ströngum reglum. Í þeim efnum er ábyrgð fjölmiðla mikil og afar mikilvægt að þeir fari jafnframt að lögum. Eins og allir starfsmenn fjármálafyrirtækja er ég bundinn af bankaleynd og á því erfitt með að svara einstökum atriðum og ávirðingum sem Morgunblaðið setur fram í grein sinni. Ég vil þó koma eftirfarandi á framfæri:
 
Morgunblaðið heldur því fram að verklagsreglur við lánveitingar sem fjallað er um hafi verið brotnar hjá bankanum. Þetta er rangt.
 
Hvað varðar lán til FL Group vil ég árétta að um lánveitingar til tengdra aðila gilda strangar reglur og var þeim fylgt í einu og öllu í minni forstjóratíð. 
 
Fjármálaeftirlitið (FME) gerði í nóvember 2007 úttekt á málum varðandi Stím ehf. sem Morgunblaðið fjallar um og afhenti bankinn FME allar upplýsingar um lánveitingar til félagsins.
 
Á þeim tíma sem ég gegndi starfi forstjóra Glitnis átti ég mjög tíð og opin samskipti við Fjármálaeftirlit og Seðlabanka og fór ég og meðstjórnendur mínir að öllu leiti að þeirra tilmælum.  Þau lutu einkum að þeim sameiginlegu markmiðum bankans og eftirlitsaðila að bankinn bætti tryggingastöðu sína, drægi úr lánveitingum til eignarhaldsfélaga, styrkti eiginfjárhlutfall og minnkaði efnahagsreikning sinn. Að þessu var unnið.
 
Nú hefur verið ákveðið að málefni gömlu bankanna verði rannsökuð til hlítar. Ég fagna því en tel mikilvægt að rannsóknin verði framkvæmd af þar til bærum óháðum erlendum sérfræðingum og að þeim verði veitt nægilegt svigrúm við þá rannsókn.
 
Virðingarfyllst,
Lárus Welding"

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK