Tvöfaldur gjaldeyrismarkaður

Reuters

Verulega hefur dregið í sundur á ný með gengi krónunnar hérlendis og því gengi sem ríkir á erlendum mörkuðum. Evran kostar nú allt að 300 krónur meðal erlendra miðlara en 187 krónur hér á landi miðað við niðurstöðu uppboðs Seðlabankans í gær.

Greining Glitnis segir að hins vegar sé líklegt að erlendur markaður með krónur lognist að miklu leyti út af nú, þar sem Íslendingar mega ekki lengur eiga hrein gjaldeyrisviðskipti utan landsteinanna samkvæmt lögum og reglum Seðlabankans um gjaldeyrismál. 

Fram kemur í Morgunkorni Glitnis, að eftir hrun bankakerfisins í októberbyrjun hafi dregið mjög sundur með gengi krónunnar á erlendum mörkuðum og því gengi sem Seðlabankinn skráir. Gengi krónu gagnvart evru hefur lækkað jafnt og þétt, og er það nú u.þ.b. 20% lægra en var er uppboð Seðlabankans hófust. Evran hefur þannig hækkað úr 150 krónum í 187 krónur á þessum tíma.

Samhliða hafi myndast aðskilinn markaður erlendis, m.a. í miðlarakerfi Reuters. Í kerfi Reuters hafi gengi evru gagnvart krónu í upphafi markaðarins um miðjan október u.þ.b. 270 krónur en var komið niður undir 200 í upphafi nóvembermánaðar. Síðan hefur verð á evrum hækkað mikið á þessum markaði og voru viðskipti í gær á genginu 290 krónur fyrir hverja evru. 

„Fróðlegt verður að fylgjast með þróun gengis krónu á erlendum mörkuðum í kjölfarið á þeim reglum sem Seðlabankinn setti síðastliðinn föstudag. Samkvæmt þeim verða íslensk fyrirtæki að skila gjaldeyristekjum til íslenskra fjármálastofnana, en töluverð brögð virðast hafa verið að sölu Íslendinga á gjaldeyri erlendis fyrir íslenskar krónur. Er það skiljanlegt í ljósi þess hversu miklu fleiri krónur hafa fengist fyrir evrur erlendis en í uppboðum Seðlabankans. Hins vegar mun framboð á krónum erlendis nú líklega þorna upp að mestu leyti, og líklegt að gengi krónu á erlendum mörkuðum færist nær því gengi sem gilda mun hér á landi. Mikilvægt er að tvöfaldur markaður með krónur festist ekki í sessi, enda grefur það undan trúverðugleika krónunnar og hindrar að áætlun íslenskra yfirvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðugleika og síðar styrkingu gjaldmiðilsins gangi eftir," segir Greining Glitnis.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK