Vísitalan lækkar um 38,88% vegna Exista og Straums

Kauphöll Íslands.
Kauphöll Íslands. Reuters

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 38,88% það sem af er morgni en lækkunin skýrist af því að viðskipti hófust með Straum og Exista á ný. Lokað hefur verið fyrir viðskipti með félögin síðan 6. október. Stendur Úrvalsvísitalan nú í 403,44 stigum en lokaði í 660,05 stigum í gær.

Lokaverð Exista var 4,62 áður en viðskipti voru stöðvuð í október en í morgun voru þrenn viðskipti með félagið á genginu 0,2. Nemur veltan með Exista 40 þúsund krónum í morgun. Lokaverð Straums þann 5. október sl. var 7,08 en í morgun voru viðskipti með bankann á genginu 2,9. Alls hafa verið 21 viðskipti með Straum í morgun.

Bakkavör hefur hækkað um 4,3% í dag en Marel lækkað um 0,25% og Færeyjabanki um 0,80%. Velta með hlutabréf nemur 41 milljón króna.

Í Ósló hefur hlutabréfavísitalan lækkað um 0,89%, Kaupmannahöfn 0,14% og Helsinki 0,48%. Í Stokkhólmi hefur hlutabréfavísitalan hækkað um 0,29%. Samnorræna vísitalan Nordic 40 hefur lækkað um 0,38%.

Í Lundúnum hefur FTSE vísitalan hækkað um 0,76% og CAC vísitalan í París um 0,65%. Í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 0,13%.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir