Strauss-Kahn varar við þjóðfélagsróstum

Dominique Strauss-Kahn
Dominique Strauss-Kahn

Hætta getur verið á að til óeirða og uppþota komi um allan heim í langvarandi heimskreppu og yfirvöld verða því að bregðast enn harðar við að koma stöðnuðu efnahagslífi af stað, sagði forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, IMF, í gær.

Dominique Strauss-Kahn varaði mjög alvarlega við því sem hann taldi fálmkennd og ómarkviss viðbrögð ríkisstjórna í efnahagskreppunni. Í harðorðri ræðu í Madrid tiltók hann sérstaklega löndin innan evrusvæðisins sem hann gagnrýndi fyrir ófullnægjandi viðbrögð, að því er fram kemur á vef The Times.

Varnaðarorð forstjóra IMF koma í kjölfar vaxandi ótta við djúpa efnahagskreppu og pólitíska upplausn af hennar völdum eftir að Kínverjar skýrðu í síðasta mánuði frá því að iðnaðarframleiðsla þar í landi hefði ekki verið minni í tæpan áratug.

Án skjótra og ákveðnari aðgerða yfirvalda til að glæða efnahagslífið þá gæti  efnahagsbatinn dregist fram á seinni hluta næsta ára eða fyrri hluta árs 2010 með alvarlegum afleiðingum. „Það er margt ógert og verði ekkert aðhafst verður erfitt að koma í veg fyrir langvarandi kreppu sem allir vilja forðast,“ sagði Strauss-Kahn ennfremur.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hvatt ríkisstjórnir helstu hagkerfa til að verja um 2% af landsframleiðslu heims eða um 1,2 billjón dala til að stemma stigu við hættunni af heimskreppu. „Takist okkur það ekki þá getur komið til uppþota í mörgum löndum, þar á meðal þróuðum hagkerfum,“ sagði hann ennfremur.

Hann hélt því ennfremur fram að óeirðir með ofbeldisverkum kynnu að brjótast út í löndum um allan heim ef þess yrði ekki gætt að fjármálakerfin þjónuðu öllum, ekki einungis fámennum sérhagsmunahópum.

IMF í andstöðu við evrópska seðlabankann

Með því að beina spjótum sínum að Evrópusambandsríkjum er Strauss-Kahn kominn í beina andstöðu við Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra Evrópu, sem einmitt í gær hvatti til evrópska ráðamenn til að gæta strangs aðhalds í ríkisfjármálum og lántökum, jafnvel þótt þeir verðu fjármunum til að örva efnahagslífið.

Trichet hvatti Evrópulöndin til að halda sig við umdeildan sáttmála ESB um stöðugleika og hagvöxt sem setja takmarkanir á lántöku yfirvalda og heildarskuldir. Strauss-Kahn sagði hins vegar að nú ætti að ýta gildandi reglubók til hliðar og setja nýjar reglur til að takast á við þær miklu efnahagslegu ógnir sem hann taldi sig sjá framundan.

„Við stöndum frammi fyrir áður óþekktum samdrætti í framleiðslu og höfum sannanir fyrir umtalsverðri óvissu um árangurinn af aðgerðum í ríkisfjármálum,“ sagði hann. „Það sem ákveðið hefur verið í Brüssel ... 1,5% af landsframleiðslu til að örva efnahaginn er nokkru minna en þörf er fyrir.“

Ummælin falla þegar hver höndin er upp á móti annarri meðal forustumanna Evrópulanda um viðbrögð við kreppunni. Þýskaland hefur sérstaklega lýst efasemdum um hversu gæfulegt sé að dæla háum fjárhæðum af almannafé inn í hagkerfið til að örva vöxt og staðið gegn þrýstingi um að leggja meira fram í sameiginlegt áttak ESB á þessu sviði.

Peer Steinbrück, fjármálaráðherra Þýskalands, var ómyrkur í máli í síðustu viku í gagnrýni á örvandi aðgerðir í gegnum skatta og eyðslu, einkanlega á borð við þær sem Bretar beittu.

„Sama fólk sem aldrei mátti heyra fjárlagahalla nefndan, henda nú á milli sín milljörðum,“ sagði hann. „Umskiptin frá framboðshliðarpólitík alla leið yfir í harðkjarna Keynes-isma eru hreint ótrúleg.“ Og í umræðum um lækkun Breta á viðisauka sagði hann: „Þetta mun einungis hækka skuldir Breta í slíkar hæðir að taka mun heila kynslóð að greiða þær niður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK