Lækkun gagnvart evru 17% á tveimur vikum

Lítið lát virðist á veikingu krónunnar og hefur gengi hennar gagnvart evru lækkað um 1,2% það sem af er degi. Hefur krónan lækkað um 17% gagnvart evru á hálfum mánuði. Samhliða þessari þróun virðist markaður með krónu erlendis hafa lifnað við að nýju. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

„Til að mynda hafa viðskipti verið nokkur með evru-krónu gengiskrossinn í miðlunarkerfi Reuters undanfarna daga eftir algera þurrð á þeim markaði fyrst eftir endurflot krónu í desemberbyrjun. Enn sem komið er eru þessi viðskipti þó aðeins brot af umfangi þeirra fyrir hrun bankanna í októberbyrjun. Munur á gengi krónu gagnvart evru á innlendum markaði og þeim erlenda hefur einnig minnkað undanfarið, ef marka má upplýsingar Reuters. Hefur evran lækkað úr 300 kr. í 200 kr. á hálfum mánuði í kerfi Reuters en á sama tíma hefur verð evru í krónum hækkað úr 146 í 173 á innlendum markaði.

Ýmsar skýringar kunna að vera á þessari þróun. Þótt erlendir fjárfestar megi ekki færa eignir sínar úr krónum í aðrar myntir er þeim heimilt að taka til sín fjármagnstekjur, þar með talið vaxtagreiðslur. Slíkar greiðslur nema nú talsverðum fjárhæðum, og á jafn smáum gjaldeyrismarkaði og við búum nú myndar útstreymi af þessum sökum þrýsting á gengi krónu.

Einnig verður að hafa í huga að ýmis innlend fyrirtæki búa enn við talsverða fjármögnunarþörf í evrum. Ef þessi fyrirtæki safna í sarpinn þeim gjaldeyri sem til þeirra berst í því skyni að standa straum af afborgunum erlendra lána í stað þess að selja hann á gjaldeyrismarkaði getur það dregið talsvert úr framboði gjaldeyris. Síðast en ekki síst hafa útflytjendur nokkurt svigrúm til þess að fresta sölu á gjaldeyri þar sem reglur um skilaskyldu kveða á um tveggja vikna skilafrest. Vænti þeir þess að krónan veikist geta þeir þannig dregið við sig að selja gjaldeyrinn og með því móti rætast væntingar um veikingu nánast sjálfkrafa," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

Þessi þróun hlýtur að vera Seðlabanka töluvert áhyggjuefni, skrifar Greining Glitnis. „Eftir góðan byr í segl krónunnar fyrst eftir endurflot hennar með höftum hefur sigið verulega á ógæfuhliðina.

Rétti krónan ekki úr kútnum að nýju í bráð verður verðbólguþrýstingur meiri á næstunni, erfiðara að lækka vexti og fyrirtæki jafnt sem heimili munu þurfa að glíma við þyngri skuldabyrði. Bregði ekki til betri vegar á næstunni gæti farið svo að bankinn þurfi að grípa til annarra meðala en hingað til hefur verið beitt, þar sem helsta markmið aðgerðaráætlunar yfirvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að ná fram stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og styrkja gengi krónu, er annars í hættu."

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK