Markaðsvirði breskra banka lækkaði um 2200 milljarða

Útibú Royal Bank of Scotland í miðborg Lundúna.
Útibú Royal Bank of Scotland í miðborg Lundúna. Reuters

Markaðsvirði breskra banka lækkaði um 17,5 milljarða punda, jafnvirði rúmlega 2200 milljarða króna, í hlutabréfaviðskiptum í dag, samkvæmt útreikningum sérfræðinga sem breska sjónvarpsstöðin Sky leitaði til. Er lækkunin rakin til yfirlýsingar Royal Bank of Scotland um að tap bankans á síðasta ári kunni að hafa numið 28 milljörðum punda.

Gengi bréfa bankans lækkaði um 67% og markaðsvirði bankans um 5 milljarða punda. Skipti engu þótt bresk stjórnvöld tilkynntu í morgun, að að þau ætluðu að leggja bankakerfinu til hundruð milljarða punda til að bæta lausafjárstöðu þess.

Gengi bréfa Lloyds Banking Group, sem varð til með samruna Lloyds og HBOS, lækkaði um 34%. Bréf Barclays lækkuðu um 10% og HSBC um 6%. Þá lækkuðu bréf í írskum bönkum verulega í dag.

Gangi það eftir, að tap á Royal Bank of Scotland hafi numið 28 milljörðum punda yrði það mesta tap eins fyrirtækis á einu ári í sögu Bretlandseyja. Gamla metið átti símafélagið Vodafone, sem tapaði 15 milljörðum punda árið 2006. 

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir