Latibær semur við breskar verslanir

Morgunblaðið
Latibær ætlar að leggja nafn sitt við markaðssetningu á hollum matvælum fyrir börn sem breska verslunarkeðjan ASDA selur undir vörumerkinu Great Stuff. Gengið verður endanlega frá samningnum eftir næstu helgi.

Hlynur Sigurðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Latabæjar, segir að veltan með þessar tilteknu vörur nemi um 13 milljörðum króna á ári eða 82 milljónum punda. Samningurinn sé því risastór, meira að segja á breskan mælikvarða. Samkvæmt samningnum fái Latibær stóra lágmarksgreiðslu auk árangurstengdra greiðslna.

Hlynur segir að yfir 100 vörutegundir, bæði matvara og drykkir, séu seldar undir merkinu Great Stuff. Vörurnar standist strangar hollustukröfur og skilyrði Latabæjar svo að fyrirtækið leggi nafn sitt við þær. Samstarfið verði kynnt ítarlega í markaðsherferð; með auglýsingum, veggspjöldum og stöndum í búðum. ASDA sé dótturfyrirtæki Wal-Mart og önnur stærsta verslunarkeðjan í Bretlandi á eftir Tesco.

Latibær gekk í síðasta mánuði frá samkomulagi við eigendur skuldabréfa sem voru með vaxtagjalddaga 20. janúar. Var um að ræða greiðslu að upphæð 60 milljónir króna sem verður dreift á næstu fimm mánuði. Tíu prósent upphæðarinnar voru greidd 20. janúar, 45% verða greidd 20. mars næstkomandi og önnur 45% 20. maí.

Sigurður Stefánsson, fjármálastjóri Latabæjar, segir þá sem áttu skuldabréfin hafa samþykkt þetta fyrirkomulag. Aðspurður hvort Latibær sé í rekstrarerfiðleikum segir Sigurður svo ekki vera og unnið sé í málefnum fyrirtækisins eins og margra annarra fyrirtækja á Íslandi um þessar mundir.

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir