AIG lofar að draga úr bónusgreiðslum

Bandaríska tryggingafélagið AIG hefur orðið við kröfum ríkisstjórnar Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, um að endurskipuleggja bónusgreiðslur til lykilstarfsmanna. Verða bónusgreiðslur æðstu yfirmanna m.a. lækkaðar um að minnsta kosti 30% á þessu ári miðað við síðasta ár.

AIG hefur átt í miklum rekstrarerfiðleikum að undanförnu og fengið gríðarlega fjármuni frá bandaríska alríkinu. Er ríkissjóður Bandaríkjanna nú skráður eigandi að 79,9% hlutafé fyrirtækisins.

Edward Liddy, stjórnarformaður AIG, skrifaði Timothy Geithner, fjármálaráðherra bréf. Þar segist Liddy hafa orðið fyrir þrýstingi frá Geithner um að draga úr bónusgreiðslum. Hins vegar sé fyrirtækinu skylt samkvæmt lögum, að greiða þá bónusa, sem samið var um á árinu 2008 áður en vandræði fyrirtækisins urðu ljós. Um er að ræða mörghundruð milljónir dala.

„Svo það sé viðurkennt þá eru hendur AIG bundnar," segir Liddy í bréfinu. „Undir núverandi kringumstæðum þykja mér þessir samningar ógeðfelldir og það er erfitt að mæla með því að við stöndum við þá."

Liddy og sex aðrir stjórnendur hafa samþykkt, að hafna bónusgreiðslum.  Liddy segir í bréfinu, að bónusar á þessu ári verði lækkaðir um að minnsta kosti 30%. 

Liddy var skipaður stjórnarformaður AIG eftir að bandaríska fjármálaráðuneytið greip fyrst til aðgerða vegna fyrirtækisins. Nú hefur AIG fengið 180 milljarða dala af opinberu fé og mun vera um að ræða umfangsmestu björgunaraðgerðir af þessu tagi í sögu Bandaríkjanna. Það var metið svo, að AIG væri svo mikilvægt fyrir bandaríska fjármálamarkaðinn að það mætti ekki fara í þrot.

AIG tapaði 61,7 milljörðum dala á þremur síðustu mánuðum síðasta árs. Er það mesta tap bandarísks fyrirtækis á einum ársfjórðungi í sögunni.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir