Ásta Dís deildarforseti á Bifröst

Ásta Dís Óladóttir deildarforseti viðskiptadeildar háskólans á Bifröst
Ásta Dís Óladóttir deildarforseti viðskiptadeildar háskólans á Bifröst

Ásta Dís Óladóttir hefur tekið við stöðu deildarforseta viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst.  Ásta Dís er með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun, og er um þessar mundir að ljúka doktorsprófi í alþjóðaviðskiptum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn þar sem hún hefur rannsakað fjárfestingar fyrirtækja frá smáum hagkerfum.

Ásta Dís hefur undanfarin tvö ár gegnt stöðu dósents við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, var um nokkurra ára skeið aðjúnkt við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, og gegndi þar stöðu kynningarfulltrúa deildarinnar. 

Hún hefur sinnt stundakennslu við Háskólann í Reykjavík og hefur starfað undanfarin ár við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, þar sem hún er jafnframt rannsakandi við rannsóknarsetur um alþjóðaviðskipti. 

Ásta Dís hefur flutt fjölmarga fyrirlestra og erindi hér á landi og á erlendum vettvangi og birt greinar í innlendum og erlendum tímaritum. Ásta Dís hefur víðtæka reynslu og hefur m.a. gegnt stjórnunarstöðum á ýmsum sviðum atvinnulífsins, m.a. verið framkvæmdastjóri Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, að því er segir í tilkynningu.

Hún hefur á undanförnum árum setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja hér á landi sem og erlendis.  Hún er stjórnarformaður Mentor og varaformaður stjórnar Frumtaks, fjárfestingasjóðs, situr í fjárfestinganefnd sjóðsins og á sæti í háskólaráði Háskólans á Bifröst.  Hún gegnir einnig stöðu forstöðumanns Rannsóknarseturs um stjórnun og alþjóðleg viðskipti á Bifröst.

Ásta Dís er fyrst íslenskra kvenna til að gegna stöðu deildarforseta viðskiptadeildar við háskóla á Íslandi.

Ásta Dís er gift Reyni Jónssyni, framkvæmdastjóra Strætó bs, og eiga þau 4 börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK