Gat ekki staðið við greiðslur

Innlán SPRON færast nú kl. 9 til Nýja Kaupþings banka.
Innlán SPRON færast nú kl. 9 til Nýja Kaupþings banka.

Seðlabankinn mat stöðu SPRON þannig á föstudag að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum sínum eða kröfuhöfum. Yfirvofandi vandamál sparisjóðsins gætu einnig haft neikvæð og keðjuverkandi áhrif á önnur fjármálafyrirtæki.

Fjármálaeftirlitið hefur birt á vef sínum ákvörðun um að beita heimildum laga til að taka yfir vald hluthafafundar SPRON og víkja stjórninni þegar frá. Eins og fram kom á blaðamannafundi viðskiptaráðherra í gær fólst í ákvörðuninni að skipuð er skilanefnd til að fara með öll málefni SPRON. Innlánin eru færð til Nýja Kaupþings banka og á það að gerast núna klukkan 9.

Í ákvörðuninni kemur fram að frá lokum október hefur eiginfjárstaða SPRON verið undir lögbundnum mörkum en Fjármálaeftirlitið veitt ítrekaða fresti í því skyni að gefa SPRON, í samvinnu við kröfuhafa, kost á að endurskipuleggja fjárhag sjóðsins á raunhæfan hátt.

Fyrir rúmri viku, eða 12. mars, óskaði Fjármálaeftirlitið eftir nánari upplýsingum um það hvernig SPRON hygðist uppfylla kröfur um nauðsynlegt eigið fé og laust fé og upplýsti alþjóðlega kröfuhafa um það síðastliðinn miðvikudag. Þar þess getið að leysa þyrfti eiginfjárvandann með öðrum aðferðum en lánalengingum.

Í svari SPRON sl. miðvikudag benti sparisjóðurinn á sölu fasteignabréfa til Íbúðarlánasjóðs sem leið til lausnar á fjármögnun félagsins. Er þar ráðgert að selja 43 milljarða kr. skuldabréfasafn og í framhaldinu annað safn veðskuldabréfa í erlendri mynt fyrir 20 milljarða kr. 

Seðlabankinn benti á að ólíklegt væri að þessi sala bætti eiginfjárstöðu Sparisjóðsins. Til þess verði ávöxtunarkrafan í þessum viðskiptum að vera lægri en sú krafa sem liggur til grundvallar bókfærðu verði bréfanna hjá sparisjóðnum.

Jafnframt benti Seðlabankinn á að til þess að viðskiptin við Íbúðarlánasjóð bæti lausafjárstöðu sparisjósins þurfi kaupverðið að vera hærra en nemur þeim lánum sem sparisjóðurinn hefur fengið hjá Seðlabankanum gegn veði í umræddum fasteignaveðsbréfum. 

Seðlabankinn vekur einnig athygli á þröngri lausafjárstöðu Sparisjóðsins. Fram kemur að hann á mjög lítinn gjaldeyri og hafi því mjög takmarkaða getu til að bjarga stöðu sinni frá degi til dags með gjaldmiðlaskiptasamningum við Seðlabankann. Staða sparisjóðsins á reikningi í Seðlabankanum hafi minnkað og að sparisjóðurinn eigi í vandræðum með að halda honum í réttu horfi frá degi til dags. Sparisjóðurinn hafi gengið mjög á yfirdráttarheimild í stórgreiðslukerfi. Engin teikn séu á lofti um um að lausafjárstaðan muni rýmkast á þann hátt að sparisjóðurinn geti greitt upp í heild eða hluta skuld sína við Seðlabankann. Sparisjóðurinn hafi ekki uppfyllt bindiskyldu síðustu mánuði. Jafnframt að Seðlabankinn hafi með samþykki stjórnvalda átt viðskipti við sparisjóðinn þrátt fyrir að hann uppfylli ekki reglur sem um það gilda.

Í niðurlagi bréfs Seðlabankans til Fjármálaeftirlitsins frá sl. föstudegi sem vitnað er til í ákvörðun þess, er því lýst að SPRON eigi engin verðbréf sem bankinn meti hæf til tryggingar. Fram kemur það mat að ekki verði gripið til þrautavaralána þar sem sparisjóðurinn uppfylli ekki eiginfjárskilyrði og geti ekki lagt fram tryggingar sem Seðlabankinn telji sér fært að samþykkja. Seðlabankinn meti stöðu sparisjóðsins á þann veg að hann geti ekki, að öðru óbreyttu, staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum sínum eða kröfuhöfum. Yfirvofandi vandamál sparisjóðsins gætu einnig haft neikvæð og keðjuverkandi áhrif á önnur fjármálafyrirtæki. 

Í gær greindi Fjármálaráðuneytið SPRON frá þessu og vakti athygli á því að staða sparisjóðsins væri orðin mjög alvarleg og lausafjár- og eiginfjárvandi virtist fara vaxandi. Jafnframt að veruleg hætta virtist vera á því að sparisjóðurinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar á næstunni. 

Í svari sparisjóðsins í gær kom fram að í þessari viku séu á umsömdum gjalddögum 563 milljónir króna. Sparisjóðurinn eigi 591 milljón í lausu fé og geti þannig mætt þessum greiðslum. Hins vegar sé ljóst að til að tryggja starfsemi sjóðsins á sama tímabili þurfi frekari fyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands. Stjórn SPRON óskaði eftir frekari svigrúmi til að leiða til lykta ágreining um uppbyggingu eiginfjárgrunns með lengingu lána og vakin athygli á því að kröfuhafar hafi sett fram tilboð um samninga.

Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins kemur fram að lausafjárvandi SPRON er nú kominn á það stig að veruleg hætta er talin á því að starfsemi bankans taki að truflast vegna þess á næstu dögum. 

Stjórn SPRON sendi Fjármálaeftirlitinu svo bréf síðdegis í gær þar sem óskað er eftir því að eftirlitið grípi til aðgerða. Það gerði Fjármálaeftirlitið síðdegis í gær með ákvörðun sinni.

Nýja Kaupþing yfirtekur skuldbindingar

Nýi Kaupþing banki yfirtekur skuldbindingar SPRON vegna innstæðna. Allir skilmálar innlána haldast óbreyttir. Yfirdráttur á veltureikningum flyst með sama hætti yfir.

Nýi Kaupþing banki tekur þó ekki peningamarkaðsinnlán frá fjármálafyrirtækjum.

Jafnframt yfirtekur Nýja Kaupþing skuldbindingar samkvæmt inn- og útflutningsábyrgðum, ábyrgðir vegna efnda fyrirtækja og einstaklinga sem tengjast reglulegri starfsemi. Ekki eru yfirteknar skuldbindingar dótturfélaga erlendis, fyrirtækja í greiðslustöðvun, skuldbindingar þeirrar sem eiga virkan eignarhluta í SPRON ofl. 

Stofnað verður sérstakt hlutafélag í eigu SPRON til að ganga frá þessum viðskiptum við Nýja Kaupþing. Á að vera búið að ganga frá þeim á hádegi á morgun.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir