Fréttaskýring: Fjöldi fyrirtækja í ríkiseigu

Þeim fjölgar sífellt fyrirtækjunum, sem eru í eigu eða undir …
Þeim fjölgar sífellt fyrirtækjunum, sem eru í eigu eða undir stjórn ríkisbankanna. mbl.is/Golli

„Mér þykir hins vegar hörmulegt að sjá hvernig komið er fyrir fyrirtækjum á Íslandi. Þau virðast hvert af öðru lenda í eigi ríkisins. Það er eins og einn allsherjar ríkissósíalismi sé tekinn við,“ sagði Einar Sveinsson í viðtali, sem birtist við hann í Morgunblaðinu í dag.

Tilefnið var innlausn Íslandsbanka á hlutabréfum eignarhaldsfélaganna Máttar og Nausts í Icelandair, þar sem Einar var ásamt fjölskyldu sinni meðal eigenda.

Frá hruni bankanna hafa fjöldamörg fyrirtæki orðið gjaldþrota eða eiga í mjög alvarlegum fjárhagsvandræðum og mörg þeirra hafa verið tekin yfir af ríkisbönkunum þremur, Íslandsbanka, Nýja Kaupþingi og Nýja Landsbanka.

Eignir Heklu teknar yfir

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu hefur Kaupþing tekið yfir tvö félög frá bankahruninu. Fyrst tók bankinn yfir rekstur og eignir Heklu hf. í samstarfi við eigendur félagsins. Heklu var svo skipt í tvennt, héldu gömlu eigendurnir eftir hlut, en fasteignir félagsins ásamt hluta reksturs þess fór til Kaupþings.

Fyrir nokkrum vikum keypti Kaupþing svo eignir og starfsemi Pennans úr þrotabúi þess félags og setti í nýtt rekstrarfélag. Um var að ræða þorra eigna Pennans, en þær höfðu verið veðsettar Kaupþingi. Þá stóð til að Kaupþing tæki yfir Íslenska aðalverktaka í mars sl., en af því hefur ekki orðið.

Tvö fyrirtæki í óskyldum rekstri eru alfarið í eigu Íslandsbanka í dag. Það eru Steypustöðin (áður Mest) og Laugarakur ehf. Bæði félögin voru þó komin í þrot fyrir bankahrun. Íslandsbanki stóð svo að sölu á Árvakri, móðurfélagi Morgunblaðsins, til nýrra eigenda.

Óttast dómínóáhrif

Landsbankinn ræður yfir 23% hlutafjár í Icelandair, en mun ekki hafa tekið nein fyrirtæki eða félög yfir. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum vinni hann hins vegar að endurskipulagningu á fjármögnun nokkurra fyrirtækja. Bankinn hefur á undanförnum mánuðum komið að sölu fyrirtækja, þar sem hann var aðalkröfuhafinn. Eitt þeirra var Árdegi, sem átti BT verslanirnar og Skífuna. Fyrir tilstilli bankans fengu Hagar að kaupa BT verslanirnar og Sena (dótturfélag 365) að kaupa Skífuna.

Í viðtalinu í dag sagðist Einar óttast að svokölluð dómínóáhrif verði mjög víðtæk í þjóðfélaginu og hvert félagið á fætur öðru verði hrifsað af eigendum. Hefur Langflug, félag í eigu Finns Ingólfssonar og Giftar, verið nefnt í því sambandi, en vissulega eiga mun fleiri félög í alvarlegum fjárhagsvanda. Í þeim hópi er  t.d. Eimskip, en stærstu eigendur þess félags, Björgólfur Guðmundsson og Magnús Þorsteinsson eru einnig mjög illa staddir.

Einar Sveinsson.
Einar Sveinsson.
Kaupþing hefur tekið yfir fasteignir og hluta reksturs Pennans.
Kaupþing hefur tekið yfir fasteignir og hluta reksturs Pennans. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK