Stýrivaxtalækkun háð skiptingu bankanna

Svein Harald Øygard seðlabankastjóri
Svein Harald Øygard seðlabankastjóri mbl.is/Kristinn

Bæði seðlabankastjóri og fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa lagt áherslu á að ljúka skiptingu milli gömlu og nýju bankanna sem fyrst. Það sé mikilvæg forsenda fyrir áframhaldandi stýrivaxtalækkun. Fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt að þetta ferli tefjist enn frekar.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Fjármálaeftirlitið hefur frestað ráðstöfun eigna og skulda gömlu bankanna til þeirra nýju um ótilgreindan tíma, en fyrri tímafrestur rann út í gær, 18. maí. Samkvæmt ákvörðun eftirlitsins liggur ekki fyrir „hversu langur sá frestur þarf að vera, en ákvörðun um það verður tekin eigi síðar en 15. júní 2009“.

Þetta ferli hefur tafist ítrekað frá því að neyðarlögin voru samþykkt. Fyrst átti það að taka tíu daga, svo sextíu daga, þá nítíu daga. Miðað við nítíu daga átti matið á milli nýju og gömlu bankana að vera tilbúið í janúar 2009. Nú er 19. maí og enn óljóst hvenær þessari vinnu ljúki.

Nauðsynlegt að koma bönkunum af stað

„Það vonast allir til að það verði hægt að ljúka þessu sem fyrst því það er auðvitað nauðsynlegt að koma bönkunum í eðlilega starfsemi. Það er skilyrði fyrir því að efnahagslífið virki,“ segir Ragnar Hafliðason, aðstoðarforstjóri FME, í Morgunblaðinu í dag.

Svein Harald Øygard seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi þegar stýrivextir voru lækkaði 7. maí síðastliðinn að eitt af þeim atriðum sem horft væri til við ákvörðun um frekari lækkun vaxta væri endurskipulagning bankakerfisins. Þeirri vinnu þyrfti að vinda vel fram.

„Vinnan hefur tekið lengri tíma en búist var við, meðal annars við endurskipulagningu bankakerfisins,“ sagði Franek Rozwadowski, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, í samtali við Morgunblaðið 21. apríl síðastliðinn aðspurður um tafir á láni frá sjóðnum.

Stýrivaxtalækkun háð endurreisn bankanna

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist í Morgunblaðinu 16. mái sl. binda vonir við stýrivaxtalækkun en ljóst væri að hún sé m.a. háð ríkisfjármálum, endurreisn bankakerfisins, úrlausn jöklabréfa og fleiru.

Miðað við tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu þá sést ekki enn til lands í endurskipulagningu fjármálakerfisins á Íslandi. Það er ekki einu sinni vitað hvenær henni lýkur, aðeins að það verði ljóst fyrir 15. júní næstkomandi. 

Ferlið er vafalaust flókið og mörg úrlausnarefni sem þurfa skoðunar við. Samskipti við ráðgjafa erlendu kröfuhafana taka tíma. En á meðan er ekki verið að uppfylla mikilvæga forsendu, sem bæði Seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setja, fyrir umtalsverðri stýrivaxtalækkun 4. júní næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK