Undirbúa þarf búferlaflutninga

Atvinnulausir bíða í röð í Sevilla.
Atvinnulausir bíða í röð í Sevilla. Reuters

Eflaust geta margir lesenda vel hugsað sér að starfa erlendis, en hika við að taka það stóra skref sem það er að hefja starfsferil í nýju landi. Umskiptin eru óneitanlega mikil og kalla ekki bara á það að venjast nýjum vinnustað, heldur líka að flytja um langan veg og læra á nýtt samfélag.

Það getur ekki síst virkað sem mikil hindrun að erfitt getur verið að leita að vinnu erlendis ef maður veit ekki hvar á að byrja leitina, og vinnumarkaðurinn hér á Íslandi smár og kunnuglegur á meðan vinnumarkaðurinn í Evrópu einni er gríðarstór og getur verkað bæði framandi og yfirþyrmandi.

„Sennilega er best að ráðleggja þeim sem eru í þessum hugleiðingum að byrja á að koma í viðtal hjá okkur,“ segir Árni Steinar Stefánsson, EURES-ráðgjafi hjá Vinnumálastofnun, en EURES er samstarf um vinnumiðlun milli ríkja EES-svæðisins.

„Þegar kemur að atvinnuleit erlendis þarf fólk að vinna úr miklu magni upplýsinga, og borgar sig að kynna sér mjög vel bæði þá kosti sem eru í stöðunni og hvernig best er að bera sig að við atvinnuleit og uppihald á hverjum stað,“ útskýrir Árni. „Heimasíðan okkar, www.eures.is, getur komið fólki á sporið, en ráðgjafar okkar geta vísað á fleiri gagnlegar vefsíður og tengiliði í þeim löndum sem áhugi er fyrir.“

Árni bendir þá á að víða í Evrópu sé atvinnuleysi ekki minna en hér á landi, og kjör ekki endilega betri. Þó getur staðan verið mjög mismunandi eftir starfsstétt og landi og jafnvel landshlutum.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir