Telur Seðlabankann vantrúaðan á aðgerðir stjórnvalda

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA og Gylfi Arnbjörnsson fagna stöðugleikasamkomulaginu
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA og Gylfi Arnbjörnsson fagna stöðugleikasamkomulaginu Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ljóst að Seðlabankinn hafi enga trú á aðgerðum ríkisstjórnarinnar og allt bendi til þess að ekki takist að ná stýrivöxtum niður fyrir 10% fyrir 1. nóvember nk. líkt og kveðið er á um í stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

„Ef Seðlabankinn lokar augunum fyrir öllu sem er að gerast í peningamálunum í kringum okkur, bæði ríkisfjármálum og öðru, þá hef ég enga trú á því."

Átti von á lækkun

Vilhjálmur segist hafa talið að stýrivextir yrðu lækkaðir í dag og að peningastefnunefndin sýni ekki mikinn kjark með því að halda stýrivöxtum óbreyttum í 12%. Segir hann engar forsendur fyrir öðru en að lækka stýrivexti nú. 

Segir hann að greinilegt að Seðlabankinn taki ekkert mark á því sem er að gerast í ríkisfjármálunum. „Síðan er Seðlabankinn að paufast með þessi gjaldeyrishöft sem allir vita að virka ekki og hafi aldrei virkað í nokkru landi í sögunni. Þeir hanga á þeim (gjaldeyrishöftunum) líkt og hundar á roði og ekki hjálpar það til og skemmir í raun fyrir."

Gengi krónunnar mun áfram vera lágt að sögn Vilhjálms og því verði ekki náð upp fyrr en alvöru fjárflæði fer í gang. Annað hvort með eðlilegri lánastarfsemi milli Íslands  og annarra landa eða opnun á aðgengi að erlendum fjármálamörkuðum. Jafnframt skipti máli að koma útflutningi í eðlilegt horf sem ekki gerist með gjaldeyrishöftunum.

„Seðlabankinn er greinilega fastur í þessum farvegi. Ég átti von á því að hann myndi brjótast út úr honum en það er greinilega ekki að gerast um þessi mánaðamót," segir Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK