Sigurður G: Sérstakur dómur yfir Baldri

Eftir stendur, segir lögmaður Baldurs Guðnasonar, ef ekkert verður að ...
Eftir stendur, segir lögmaður Baldurs Guðnasonar, ef ekkert verður að gert, að ráðningasamningur Baldurs með lægri laun í uppsagnarfrest er enn þá gildur. JIM Smart

„Mér finnst þetta mjög sérstakur dómur,“ segir Sigurður G. Guðjónsson,  lögmaður Baldurs Guðnasonar, fyrrverandi forstjóra Eimskipafélagins í samtali við mbl.is. „Það er afskaplega harður dómur að halda því fram að Baldur Guðnason hafi svikið út launahækkun úr Eimskipafélagi Íslands.“

Eimskip var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknað af kröfu Baldurs Guðnasonar, fyrrverandi forstjóra þess, um greiðslu launa í tvö ár, allt til loka febrúar 2010. Byggir sýknan á því að Baldur hafi misnotað aðstöðu sína og því beri að ógilda starflokasamning við hann.

Eftir stendur, segir Sigurður, ef ekkert verður að gert, að ráðningasamningur Baldurs með lægri laun í uppsagnarfresti er enn þá gildur.

Sigurði þykir það sérstakt að dæma að Baldur hafi beitt stjórnarformann Eimskipafélagsins og lögmann þess svikum, varðandi þau launakjör sem tilgreind eru í viðaukanum við ráðningarsamninginn.

„Það lá fyrir hjá félaginu gögn um það að það ætti að hækka laun starfsmanna. Það var búið að ganga frá hækkun á launum undirmanna. Og stjórnarformaður félagsins hafði samþykkt þetta og forstjóri átti auðvitað að treysta því að stjórnarformaðurinn hafði bakland sitt í lagi,“ segir hann.

Aðspurður hvort málinu verði áfrýjað til hæstaréttar, segist Sigurður eiga eftir að skoða það. „Ég á eftir að ræða það við stjórn Eimskipafélagsins, hvort þeir ætli ekki að virða þann launasamning sem þeir þá skrifuðu undir við Baldur á sínum tíma,“ svarar hann. Þ.e.a.s., að launahækkuninni yrði einungis vikið til hliðar, en launasamningurinn standi enn eftir.

„Ef félagið á efni á því, en mér sýnist að það sé búið að skjóta undan öllum eignum undan þar yfir í nýtt félag,“ segir Sigurður og bætir við: „Enn eitt kennitöluflakkið á Íslandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir