Segir af sér vegna Icesave

Erindreki hollensku drottningarinnar í Norður-Hollandi (Noord-Holland héraði), Harry Borghouts, hefur ákveðið að segja af sér stjórnarsetu í einum stærsta eftirlaunasjóði heims, ABP, en um eftirlaunasjóð opinberra starfsmanna í Hollandi er að ræða. Ástæða afsagnarinnar er tap sjóðsins vegna Icesave.

Höfðu sveitarstjórnarmenn í héraðinu hótað því að lýsa yfir vantrausti á Borghouts eftir að í ljós kom að héraðið hafði tapað um 78 milljónum evra, 13,9 milljörðum króna, á hruni Landsbankans en peningarnir voru á Icesave reikningi Landsbankans í Hollandi.

Héraðsstjórnin öll sagði af sér í kjölfar þrotsins. Í kjölfarið sagðist Borghouts myndu láta af öllum aukastörfum sínum og einbeita sér að málefnum héraðsins.
Héraðsyfirvöld gáfu Borghout frest til dagsins í dag til að láta af starfinu og tilkynnti hann afsögn sína í morgun.

Ný héraðsstjórn kemur saman í fyrsta skipti í dag, að því er fram kemur í frétt ANP fréttastofunnar. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir