16 milljarðar inn í Sjóvá

Þorvaldur Örn Kristmundsson

Nýtt félag undir merkjum Sjóvár verður stofnað sem yfirtekur einungis vátryggingastarfsemi hins eldra félags. Þetta felur í sér að fasteignatengd fjárfestingastarfsemi er skilin frá hefðbundinni vátryggingastarfsemi Sjóvár, að því er fram kemur í tilkynningu.

Undirbúningur sölu hefst fljótlega

„Glitnir, SAT eignarhaldsfélag (félag í eigu Glitnis) og Íslandsbanki, hafa lagt um 16 milljarða inn í Sjóvá til að bæta eiginfjárstöðu félagsins og tryggja rekstur þess til framtíðar. Ríkissjóður hefur veitt SAT eignarhaldsfélagi fyrirgreiðslu, í formi skuldabréfa, gegn veði í hlutafjáreign SAT eignarhaldsfélags í Sjóvá. Með aðkomu sinni vilja stjórnvöld standa vörð um kröfur ríkisins og um leið hagsmuni fjölmargra vátryggingataka.Hafinn verður undirbúningur að formlegu söluferli Sjóvár á næstu mánuðum," samkvæmt tilkynningu.

Af 16 milljörðum koma 11,6 milljarðar frá ríkinu

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að fjármálaráðherra hafi í samráði við ríkisstjórnina ákveðið að taka þátt í endurskipulagningu á vátryggingastarfsemi Sjóvár. 

Í þessu skyni hefur ríkissjóður selt SAT kröfur sem ríkissjóður eignaðist við fall viðskiptabankanna í október síðastliðnum. Meðal seldra krafna eru kröfur á Askar Capital dótturfélag Milestone samstæðunnar. Sala þessara krafna er mikilvægur liður í aðskilnaði vátryggingastarfsemi Sjóvár og fjárfestingu tengdri fasteignaverkefnum, samkvæmt tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

73% hlutur í Sjóvá settur að veði

Söluverð krafnanna er 11,6 milljarðar sem skulu greiðast innan 18 mánaða eða við sölu Sjóvár.  Í greiðslufrestinum sem ríkissjóður veitir eru hlutabréfin sem SAT eignarhaldsfélag eignast við endurskipulagningu Sjóvár veðsett til tryggingar skilvísri greiðslu en um er að ræða 73% hlut í vátryggingafélaginu Sjóvá.

„Sala þessara krafna er þáttur í þeirri vinnu sem fer fram í fjármálaráðuneytinu við að hámarka verðgildi þeirra eigna sem ríkissjóður fékk við fall bankanna í október 2008," samkvæmt tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Með endurskipulagningunni uppfyllir Sjóvá öll skilyrði Fjármálaeftirlitsins um vátryggingastarfsemi.

Sú rannsókn sem nú stendur yfir af hálfu yfirvalda snertir í engu núverandi starfsemi Sjóvár. Starfsmenn félagsins munu veita yfirvöldum allar upplýsingar og aðstoða við rannsókn málsins eins og kostur er, samkvæmt tilkynningu frá eigendum Sjóvár.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir