Evran aldrei dýrari á árinu

Reuter

Gengi evrunnar er nú 181,80 krónur og hefur ekki verið jafn hátt það sem af er ári. Gengi krónunnar hefur lækkað um 0,75% það sem af er degi en gengisvísitalan er 236,80 stig. Er það hæsta gildi vísitölunnar og þar af leiðandi lægsta gengi krónunnar, það sem af er ári, samkvæmt upplýsingum frá gjaldeyrisborði Íslandsbanka.

Hefur gengi evrunnar gagnvart krónu hækkað um rúm 7% það sem af er ári ef farið er eftir gengisskráningu Seðlabanka Íslands. Þar kemur fram að evran var 169,97 krónur þann 1. janúar sl en er 181,95 krónur í dag, samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans í morgun.

Gengi pundsins hefur hækkað um 21,54% gagnvart krónu

Bandaríkjadalur er 129,84 krónur, danska krónan er 24,41 króna og pundið er samkvæmt Íslandsbanka 213,18 krónur. Samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans hefur gengi pundsins styrkst gagnvart íslensku krónunni um 21,54% á árinu.

Evran er einungis 6 krónum frá því að vera jafn dýr og hún varð dýrust eftir bankahrunið í október á síðasta ári, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Lítil trú á krónunni

„Eftir tímabil stöðugleika frá því í upphafi júní síðastliðinn hefur krónan verið að lækka í þessari viku samtals um 2,0%. Króna hefur verið að lækka í verði þrátt fyrir mikil gjaldeyrishöft, inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði, umtalsverðan mun á innlendum og erlendum vöxtum og mikinn  afgang af vöru- og þjónustujöfnuði við útlönd.

Lítil trú er á krónunni og talsverðar væntingar um frekari lækkun hennar. Hvorutveggja gerir það að verkum að vilji fjármagnseigenda til að halda krónunni er lítill.

Viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri hafa verið lítil og litlar fjárhæðir þarf því til að hreyfa gengi krónunnar nokkuð. Fréttir af hugsanlegri frestun á að annar hluti láns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skili sér hefur haft neikvæð áhrif á markaðinn í vikunni.

Engar breytingar hafa orðið á gengi krónunnar á aflandsmarkaði í vikunni. Þar kostar evran 220 krónur. Viðskipti þar eru afar lítil og strjál," að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir