Reuters: Hvar var Ásgeir?

Ásgeir Jónsson
Ásgeir Jónsson frikki

Hvar var Ásgeir Jónsson þegar íslenskt efnahagslíf hrundi? Varaði hann við hruninu? Þetta er meðal spurninga sem bókagagnrýnandi Reuters spyr í gagnrýni um bók Ásgeirs, „Why Iceland", en bókin kom nýverið út á ensku. Ásgeir er aðalhagfræðingur Kaupþings og stýrði greiningardeild bankans er hann fór í þrot.

Gagnrýnandi bókarinnar segir hana þægilega yfirlestrar en í bókinni sé farið vel yfir það sem gerðist á Íslandi fyrir hrun. Ásgeir er hins vegar gagnrýndur fyrir að upplýsa ekki um hvar hann hafi verið þegar allt þetta reið yfir. Í viðtali við Reuters segir Ásgeir að það sé ljóst að hann hafi verið of auðtrúa. „Okkar helsta vandamál var ofur-metnaður okkar, vildum verða of stór fyrir svo litla þjóð." 

Í bókagagnrýninni kemur fram hvernig Ásgeir var keyptur frá háskólanum til Kaupþings og að faðir hans, Jón Bjarnason, sé nú landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.

Í viðtali við Ásgeir sem birtist í Morgunblaðinu nýverið vegna útgáfu bókarinnar kemur fram að bókin er fyrst og fremst skrifuð fyrir hinn enskumælandi heim sem Ásgeir segir að hafi mikinn áhuga á efnahagshruninu á Íslandi og allt aðra sýn á það sem hér gerðist en Íslendingar sjálfir. Íslensk útgáfa bókarinnar er þó fyrirhuguð.

„Það er engin tilviljun að bandarísku fjárfestingabankarnir lenda í vandræðum á sama tíma og bankarnir hér, enda módelið ekkert ósvipað. Af þessum fimm stóru fjárfestingabönkum í Bandaríkjunum er enginn þeirra fjárfestingabanki lengur, þeir hafa verið teknir yfir eða þeim breytt.“

Spurður hvort módelið hafi þá ekki verið gallað segir Ásgeir að módelið hafi virkað vel síðustu tíu árin en vissulega hafi það reynst ákaflega illa þegar fjármálakreppan skall á. „Bankarnir brugðust að sumu leyti við gagnrýninni 2006. Allir bankar lengdu í útgáfu skuldabréfa og fóru í innlánasöfnun. Það sem við gerðum okkur ekki grein fyrir var hinsvegar kerfisbundin áhætta í íslenska kerfinu. Íslenska fjármálakerfið einkenndist af þremur stórum fjárfestingabönkum og það er dálítið sérstakt, líka það að þeir voru í svona mikilli erlendri starfsemi.“

Spurður hvort ekki hefðu átt að kvikna viðvörunarljós í greiningardeildum, vegna þensluáhrifa slíkrar starfsemi í umhverfi þar sem fjármagn var ódýrt og til staðar, segir Ásgeir það hárrétt.

„Ég get sýnt þér greiningar frá 2006 þar sem við sögðum að fasteignamarkaður væri að fara að lækka, en svo hækkaði markaðurinn í staðinn í eitt ár til viðbótar. Einnig varaði ég við áhættunni af því að taka gengisbundin lán. En ég skal alveg viðurkenna að við vorum meðvirkir hvað hlutabréfin varðar og við hefðum mátt vera miklu gagnrýnni á markaðinn. Þetta er hinsvegar tíu ára tímabil sem er blómatímabil sem endar með algerri bólu. Við hefðum átt að vera miklu, miklu gagnrýnni en við vorum og ég tek á mig fulla ábyrgð hvað það varðar. Greiningarnar á fasteignamarkaði, efnahagslífi og gjaldeyrismarkaði sem greiningardeildin gerði standa alveg fyrir sínu – hlutabréfin, þar tókst ekki eins vel til.“

Bókagagnrýni Reuters í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK