Telegraph: Ekkert venjulegt hrun

Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir
Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir mbl.is/Golli

Ísland: hvaða ljótu leyndarmál bíða þess að vera ljóstrað upp  í bráðnuninni? (Iceland: what ugly secrets are waiting to be exposed in the meltdown?)

Svona hljóðar fyrirsögn á langri grein sem birt er á vef breska dagblaðsins Telegraph í kvöld. Þar segir að tæpu ári eftir hrun íslensku bankanna sé rotið eðli þeirra smátt og smátt að koma í ljós.

Rannsókn nær víða

Svo mánuðum skiptir hefur verið uppi orðrómur um markaðsmisnotkun, lánveitingar til eigenda, fjármagnsflutninga í skattaskjól og fleiri atriði hafa verið talin upp um starfsemi bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans. Við hrun þeirra í október í fyrra hafi um 300 þúsund breskir sparifjáreigendur staðið frammi fyrir því að geta ekki nálgst fé sitt, samkvæmt grein Telegraph.

Það hafi nú komið í ljós að hrun íslensku bankanna sé ekkert venjulegt hrun. Rannsókn standi nú yfir á hvort refsivert athæfi hafi viðgengist í bönkunum þremur og  talið að rannsóknin nái allt frá Reykjavík til Lundúna, Lúxemborgar og Bresku jómfrúareyja. 

Flókin leyndarmál bankanna

Í greininni er vísað til orða Evu Joly um að rannsóknin verði væntanlega sú viðamesta í sögunni hvað varðar hrun banka og efnahagslífs.

Mörg leyndarmál bankanna eigi væntanlega eftir að reynast mörgum erfitt með að skilja og eltingaleikurinn við eignir muni snerta mörg heimili í Bretlandi.

Greinarhöfundur fer yfir tap breskra sveitarfélaga á hruni íslensku bankanna og áhrifin á stöðu þeirra og þjónustu sem þau geta boðið íbúum sínum á næsta ári. Þrátt fyrir að breska fjármálaráðuneytið ráði varla við að greiða fyrir það tjón sem breskir bankar ollu þá hafi  það neyðst til þess að greiða 7,5 milljarða punda til breskra sparifjáreigenda sem áttu innistæður á Icesave-reikningum Landsbankans og Edge reikningi Kaupþings, segir í grein Telegraph.

Þar er einnig fjallað um lán Kaupþings til margra efnaðra breskra kaupsýslumanna eins og Robert Tchenguiz, Candy bræðurna, Kevin Stanford og Simon Halabi.

Rætt er við Jón Daníelsson, hagfræðikennara við London School of Economics og Ólaf Ísleifsson, hagfræðikennara við Háskólann í Reykjavík um undanfara hrunsins og hvað bíði í framtíðinni.

Lánað til að hækka verð eigin hlutabréfa á 0% vöxtum

Telegraph fjallar um lekann á lánabók Kaupþings og veldi Bakkabræðra, Ágústs og Lýðs Guðmundssona og eignarhald þeirra og lán hjá bankanum. Kemur fram að um þriðjungur af lánasafni Kaupþings, 6 milljarðar punda, hafi runnið til fámenns hóps manna sem tengdust eignarhaldi og stjórnun bankans.Til rannsóknar sé hvort bankinn hafi virkilega lánað mönnum fé til þess að kaupa hluti í bankanum án þess að þess að greiða krónu í vexti af lánum og með þessu hafi verið hægt að auka virði bankans. 

Nefnir Telegraph ein slík viðskipti, sem blaðið segir „myrk" (murky), en það eru kaup QFinance á 5% hlut í Kaupþingi. En félagið tengist Mohammed bin Khalifa Al-Thani. Nokkrum vikum fyrir hrun bankans hafi verið send út fréttatilkynning um að þessi kaup sýni hve sterk staða bankans sé.

Það hafi hins vegar ekki komið í ljós fyrr en eftir hrun að fjárfestirinn frá Katar hafi „keypt" hlutinn með láni frá Kaupþingi og eignarhaldsfélagi sem tengdist einum starfsmanni bankans. Með þessu hafi Kaupþing haft áhrif á verð eigin hlutabréfa sem ekki virðist hafa verið óalgengt hjá bankanum. Nú sé einnig verið að rannsaka kaup kaupsýslumannanna og bræðranna Moises og Mendi Gertner á hlut í bankanum.

Jafnframt séu lán til starfsmanna Kaupþings til hlutabréfakaupa til skoðunar en þau lán voru afskrifuð rétt fyrir hrun bankans.

Eigendur Landsbankans og lán til tengdra aðila

Telegraph fjallar einnig um viðskiptaveldi Björgólfsfeðga og rifjar upp feril Björgólfs Guðmundssonar hjá Hafskip og að hann hafi verið dæmdur á sínum tíma fyrir minniháttar bókhaldsbrot. Hann og sonur hans, Björgólfur Thor, séu þeir sem áttu Landsbankann, banka sem stóð fyrir Icesave. 

Upplýsingar frá Landsbanka benti til þess að fyrirtæki sem tengist stjórn bankans hafi fengið að minnsta kosti 300 milljónir punda að láni. Jafnframt hafi fyrirtæki Björgólfs Thors, Novator, fengið lán hjá bankanum. Því hafi síðan verið haldið fram að ekki hefði þurft að greina sérstaklega frá því þar sem hann tengdist bankanum ekki beint. 

Jón Ásgeir og félagar réðu Glitni

Á sama tíma hafi Glitnir verið undir stjórn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og viðskiptafélaga hans. Vitað sé að Glitnir hafi lánað fólki tengdu bankanum 200 milljónir punda hið minnsta. 

FL Group og Hannes Smárason og fleiri félagar Jóns Ásgeirs fá sinn skammt í greininni auk þess sem fjallað er um þau varnaðarorð sem ýmsir útlendir sérfræðingar létu falla nokkru fyrir hrun - en enginn hlustaði á.

Greinin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK