Gert ráð fyrir 50% endurheimtum af kröfum

Fyrirliggjandi áætlanir Straums um endurskipulagningu og uppgjör við almenna kröfuhafa gera ráð fyrir ríflega 50% endurheimtum þeirra. Engar kröfur hafa verið gerðar um greiðslur til starfsmanna, samkvæmt tilkynningu sem Straumur hefur sent frá sér.

„Vegna fréttaflutnings um árangurstengdar greiðslur til starfsmanna Straums þykir rétt að árétta eftirfarandi:

Fyrirliggjandi áætlanir Straums um endurskipulagningu og uppgjör við almenna kröfuhafa gera ráð fyrir ríflega 50% endurheimtum þeirra. Þeir kröfuhafar sem njóta trygginga, þar á meðal íslenska ríkið, fái kröfur sínar greiddar að fullu. Jafnframt felst í áætlunum Straums að almennir kröfuhafar eignist félagið óskipt og taki yfir stjórn þess.

Engar kröfur hafa verið gerðar um greiðslur til starfsmanna en við áætlanagerð og mat Straums á endurheimtum kröfuhafa hefur verið stuðst við ákveðnar forsendur um laun og árangurstengdar greiðslur á næstu fimm árum. Slíkar greiðslur verða ekki hluti af nauðasamningum Straums og koma fyrst til umræðu og ákvörðunar nýrrar stjórnar að lokinni endurskipulagningu félagsins.

Umræður um að kröfuhöfum, þar á meðal íslenskum lífeyrissjóðum, beri að hafna hugmyndum um endurskipulagningu Straums vegna krafna um óhóflegar greiðslur til starfsmanna eru samkvæmt þessu á misskilningi byggðar," samkvæmt tilkynningu frá Straumi,

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir