Lýður: Mannorðsmorð leyfð

Frá aðalfundi Exista í morgun
Frá aðalfundi Exista í morgun mbl.is/Kristinn
Þau skemmdarverk sem unnin hafa verið á heimilum einstaklinga í viðskiptalífinu og lekinn úr lánabók Kaupþings á Wikileaks var á meðal þess sem Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista fjallaði um í ræðu sinni á aðalfundi félagsins í morgun. Segir Lýður að í þeirri skálmöld sem hér ríki um þessar mundir leyfast dylgjur og slúður, mannorðsmorð og lögbrot án þess að nokkur ábyrgur aðili hreyfi mótmælum.

Segist skilja reiði samfélagsins

„Tilhæfulausar aðdróttanir um allt milli himins og jarðar í viðskiptalífinu hafa því miður verið daglegt brauð frá bankahruninu og nær allir sem fyrir þeim verða virðast sekir þar til þeir hafa sannað sakleysi sitt. Þannig hefur grundvallaratriði réttarríkisins verið snúið algerlega á haus.

Í raun má segja að andrúmsloftið í samfélaginu sé þannig að nær allt atvinnulíf, með örfáum undantekningum þó, sem tengist útrás og enn er uppistandandi virðist af hinu vonda.

Ég skil reiði samfélagsins í garð þeirra sem fyrir hrunið töldust til hinna nýríku sem allt varð að gulli með glannaskap sínum sem þjóðin geldur nú fyrir. Enda þótt í þessari lýsingu sé ákveðin einföldun tel ég hana í takt við umræðu á alþingi götunnar og við því er ekkert að segja.

Ég skil hins vegar ekki hvers vegna jafn fáir og raun ber vitni eru reiðubúnir til að ganga fram fyrir skjöldu og verja það sjónarmið að mikilvægt sé að tryggja með öllum tiltækum ráðum eins miklar heimtur á fjárhagslegum verðmætum og mögulega er unnt að fá," segir stjórnarformaður Exista.

Þeir sem beri ábyrgðina verði dregnir til ábyrgðar

Lýður segist vera stuðningsmaður þess að bankahrunið, aðdragandi þess, ástæður og afleiðingar verði rannsakaðar með yfirgripsmiklum og vönduðum hætti. Í þeirri vinnu megi ekkert til spara, hvorki fjármuni né fagmennsku.

„Ég er líka fylgjandi því að þeir sem ábyrgðina bera verði dregnir til hennar. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að hafi verðmætum verið skotið undan með ólögmætum hætti verði þau sótt með öllum tiltækum ráðum. Og ég er sannfærður um að allt þetta verður gert.

Ég er hins vegar alls ekki fylgjandi því að á sama tíma sé tugum eða jafnvel hundruðum milljarða króna kastað á glæ í þeim tilgangi einum að knésetja einhverja einstaklinga sem af einhverjum ótilgreindum eða jafnvel engum ástæðum hafa verið úrskurðaðir sekir af dómstóli götunnar," segir Lýður.

Hann segist telja að það sé stjórnvalda að halda haus gagnvart því andrúmslofti nornaveiða sem kynt hefur verið upp í samfélaginu „en því miður virðist kjarkur þeirra til að taka af skarið og standa vörð um stoðir réttarkerfisins vera af skornum skammti. Að minnsta kosti er mér ekki kunnugt um að nokkurs staðar í stjórnsýslunni hafi verið hvatt til þess að íslenskir kröfuhafar Exista leggðu sig fram um að ná samningum við félagið enda þótt fyrir liggi áætlanir þess um að endurgreiða að minnsta kosti langstærsta hluta skuldbindinga sinna. Ennþá síður virðist manni fjórða valdið í samfélaginu, fjölmiðlar, áhugasamir í þeim efnum."

Stjórnarformanni Exista virðist sem einstaka ráðamenn þjóðarinnar nánast fagni lekanum á lánabók Kaupþings enda þótt hann væri bæði ólögmætur og líklegur til að skaða þjóðina um tugi milljarða króna.

Á sama tíma heyrðust þær skoðanir stjórnarþingmanna að lekinn til fjölmiðla um fyrirvara vegna Icesave-samningsins ætti að rannsaka sem landráð, að sögn Lýðs Guðmundssonar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir