Laun forstjóra Stoða lækka um 70%

Jón Sigurðsson.
Jón Sigurðsson.

Samkomulag hefur nú verið gert við Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóra Stoða, sem felur í sér yfir 70% lækkun á launum hans. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Stoðum vegna fréttar í Fréttablaðinu í dag þar sem fram kemur að laun Jóns hafi ekki lækkað þótt Stoðir séu í greiðslustöðvun.

Í yfirlýsingu Stoða segir, að Jón hafi síðustu misserin starfað fyrir Stoðir samkvæmt gildandi ráðningarsamningi. Laun framkvæmdastjóra samkvæmt samningnum séu um 5 milljónir á mánuði.

„Eftir að nauðasamningar Stoða voru samþykktir fyrr í sumar varð fyrst ljóst að starfsemi félagsins myndi halda áfram. Samkomulag hefur nú verið gert við framkvæmdastjóra félagsins sem felur í sér yfir 70% lækkun á launum hans," segir í yfirlýsingunni. Samkvæmt þessu lækka laun Jóns í 1,5 milljónir króna á mánuði.

Tekið er fram, að Stoðir séu ekki í meirihlutaeigu ríkisfyrirtækja eins og haldið sé fram í frétt Fréttablaðsins. Þá segist stjórn Stoða vilja gera athugasemd við frétt Ríkisútvarpsins sl. mánudagskvöld, þar sem því hafi verið haldið fram að kröfuhafar Stoða hafi með samþykkt nauðasamninga sett „pottlokið kyrfilega á Stoðir” og hindrað þar með skoðun á starfsháttum félagsins.

„Þetta er fjarri sanni, enda hafa nauðasamningar ekkert slíkt í för með sér. Síðastliðnar vikur hefur stjórn Stoða látið gera ítarlega skoðun og úttekt á öllu sem viðkemur rekstri og viðskiptum félagsins með tilliti til hugsanlegrar riftunar gjörninga. Niðurstaða þeirrar vinnu, sem unnin er af óháðum endurskoðendum og lögmönnum, mun liggja fyrir bráðlega," segir í tilkynningunni, sem Eiríkur Elís Þorláksson, stjórnarformaður Stoða, skrifar undir.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir