Nær engin veð fyrir kröfum Glitnis

Skilanefnd Glitnis er langstærsti kröfuhafinn í þrotabú Fons ehf., sem áður var í meirihlutaeigu Pálma Haraldssonar. Alls nema kröfur í búið 34,5 milljörðum króna, en þar af eru kröfur Glitnis 23,7 milljarðar króna, eða 68,7% allra krafna í búið. Af kröfum Glitnis eru aðeins 570 milljónir veðkröfur.

Nýi Landsbankinn, NBI, er næststærsti kröfuhafinn, með 4,8 milljarða kröfur. Kröfur NBI eru allar veðkröfur á meðan langstærstur hluti krafna Glitnis er almennar kröfur. Almennar kröfur fást ekki greiddar fyrr en veðkröfur og forgangskröfur hafa verið greiddar, en til forgangskrafna teljast t.d. laun.

Vill fá aðgang að upplýsingum

Vilhjálmur Bjarnason hefur farið þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómurinn úrskurði um skyldu skilanefndar Glitnis og skiptastjóra Fons um að veita Vilhjálmi aðgang að upplýsingum er varða kröfur Glitnis á hendur þrotabúinu. Vilhjálmur rekur nú mál fyrir Hæstarétti á hendur stjórn Glitnis vegna meðferðar þeirra á fjármunum bankans.

Hafa skilanefnd og skiptastjóri bæði hafnað beiðni Vilhjálms um aðgang að þessum upplýsingum. Skiptastjóri þrotabúsins, Óskar Sigurðsson, vísar í bréfi á skilanefndina, en skilanefndin ber hins vegar við bankaleynd.

Telur Vilhjálmur að ákvæði um bankaleynd eigi hins vegar ekki við í þessu tilfelli, annars vegar vegna þess að þrotabú Fons sé annar lögaðili en Fons sjálft og hafi aldrei verið í viðskiptum við bankann. Þá hafi Vilhjálmur einkaréttarlega hagsmuni af því að fá umrædd gögn, þar sem hann telji að þau geti nýst honum í dómsmálinu.

Í samtali við Morgunblaðið segir Óskar Sigurðsson, skiptastjóri þrotabúsins, að forgangskröfur í búið muni að öllum líkindum fást greiddar og veðkröfur sömuleiðis. Hins vegar sé ekki hægt að slá á það á þessu stigi hve mikið af almennum kröfum fáist greiddar.

Segir hann að meðal þess, sem verið sé að skoða, sé hvort hægt sé að rifta samningi, sem þynnti hlut Fons í Iceland Express, en jók hlut Fengs ehf., annars félags í eigu Pálma Haraldssonar.

Í hnotskurn
» Veðkröfur í þrotabú Fons nema alls 5,34 milljörðum króna.
» Forgangskröfur nema 30,9 milljónum.
» Almennar kröfur nema alls 29,15 milljörðum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK