Kröfuhafar gætu eignast Kaupþing

Kaupþing
Kaupþing mbl.is/Ómar

Samkomulag hefur náðst milli skilanefndar Kaupþings og ríkissjóðs um möguleg kaup nefndarinnar á allt að 87 prósent hlut í Nýja Kaupþingi, samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Kaupþings. Verður skrifað undir samkomulagið síðar í dag. Til stóð að það yrði gert í gær en samningaviðræður drógust.

Samkomulagið felur í sér tvo möguleika fyrir skilanefnd Kaupþings; Annars vegar getur Kaupþing eignast 87% hlutafjár íslenska ríkisins í Nýja Kaupþingi og verður hlutur ríkisins þá 13%. Hins vegar getur Kaupþing valið þann kost að taka ekki þátt í fjármögnun bankans að svo stöddu en hafi þess í stað kauprétt á allt að 90% hlutafjár sem verður virkur á árunum 2011-2015.

Mikil áhersla hefur verið lögð á það af hálfu fjármálaráðuneytisins að ljúka málinu sem fyrst. Er það ekki síst til þess að uppfylla skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um endurreisn fjármálakerfisins hér á landi.

Erlendir kröfuhafar Kaupþings, sem margir hverjir eru stórir alþjóðlegir bankar eins og Deutsche Bank, hafa frest til 31. október á þessu ári til að taka afstöðu til þess hvort þeir vilji eignast hlut í Nýja Kaupþingi. Skilanefnd Kaupþings mun fara með eignarhlutinn fyrir þeirra hönd.

Mikil óvissa ríkir um marga stóra kröfuhafa sem eru eigendur skuldabréfa þar sem bréfin hafa gengið kaupum og sölum með afföllum frá því bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu hinn 8. október á síðasta ári. Þessir skuldabréfaeigendur hafa frest til 30. desember til að lýsa kröfum þegar kröfulýsingarfresturinn rennur út.

Fjármögnun Nýja Kaupþings og Íslandsbanka hefur verið tryggð, en gengið var frá samkomulagi þess efnis hinn 14. ágúst síðastliðinn. Fjármögnun Nýja Landsbankans hefur dregist, en til stendur að hann verði alfarið í ríkiseigu.

Nýja Kaupþing fær 72 milljarða króna í eigið fé sem lagt er fram í formi ríkisskuldabréfa og á að tryggja bankanum 12 prósent eiginfjárhlutfall. Er það í samræmi við samkomulag sem kynnt var hinn 14. ágúst síðastliðinn. Íslandsbanki fær 65 milljarða króna með sama hætti.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK