Bótaskylda Landsvaka viðurkennd

Landsvaki, rekstrarfélag peningamarkaðssjóða Landsbankans, gætti ekki jafnræðis sjóðfélaga hlutdeildar­skírteinishafa eins ...
Landsvaki, rekstrarfélag peningamarkaðssjóða Landsbankans, gætti ekki jafnræðis sjóðfélaga hlutdeildar­skírteinishafa eins og honum var skylt og bakaði sér bótaskyldu. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á varakröfu hlutdeildarskírteinishafa í peningamarkaðssjóðum Landsbankans að hluta til og viðurkennt rétt þeirra til skaðabóta vegna þeirrar rýrnunar sem varð á eignarhluta hennar í peningamarkaðssjóði Landsbankans og rekja má til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi Landsvaka.

Hlutdeildarskírteinishafarnir, alls átján talsins, höfðuðu mál gegn Landsbankanum og Landsvaka, rekstrarfélagi peningamarkaðssjóða Landsbankans, og kröfðust skaðabóta vegna eignarýrnunar sem varð á verðmæti eignarhluta þeirra í peninga­markaðssjóði Landsbankans. Til vara kröfðust þeir viðurkenningar á bótarétti, sem fallist var á að hluta. 

Það var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að forráðamenn peningamarkaðssjóðsins hefðu ekki látið slæmar fréttir af gengi Eimskips koma fram í mati á bréfum útgefnum af Eimskip í eignasafni hans. Sama á við um verðmæti bréfaeignar sjóðsins í Samson eignarhaldsfélagi sem laskaðist við slæmt gengi Eimskips. 

Var því fallist á það með stefnendum að hlutdeildarskírteinishöfum í peningamarkaðssjóðnum hafi verið mismunað í aðdraganda að lokun sjóðsins hinn 6. október 2008 eftir því hvort þeir innleystu hlutdeild sína eða ekki.  Þeir, sem innleystu hlutdeild sína frá 10. september 2008 til lokunar 6. október s.á., fengu of hátt verð fyrir eignarhlut sinn í sjóðnum sem leiddi til þess að eign þeirra, sem eftir sátu, rýrnaði að sama skapi. 

Með þessu gætti Landsvaki ekki jafnræðis sjóðfélaga hlutdeildar­skírteinishafa eins og honum var skylt, að mati dómsins og bakaði sér bótaskyldu gagnvart stefnendum. Fram kemur að heildartjónið, sem og hlutfallslegt tjón stefnenda, sé unnt að meta út frá gögnum í bókhaldi sjóðsins. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir