Háðir geðþótta eigenda

Kröfuhafar stórra fyrirtækja sem starfa á grundvelli leyfa frá erlendum stórfyrirtækjum virðast háðir geðþótta leyfisveitendanna og geta ekki gengið að fyrirtækjunum þrátt fyrir svimandi háar skuldir þeirra.

Bæði skilanefnd Landsbankans og Nýi Kaupþing banki geta ekki gengið að skuldunautum eins og Toyota á Íslandi og Vífilfelli, því rekstrargrundvöllur viðkomandi fyrirtækja er háður velvilja erlendra leyfisveitenda, í þessum tilvikum Toyota og Coca Cola Company.

Fyrirkomulagið er með þessum hætti jafnvel þótt verðmæti umræddra fyrirtækja felist að stórum hluta í leyfum sem þau starfa undir. Hafa þau í mörgum tilvikum fengið lán, m.a. á þeirri forsendu að þau hafi umrædd leyfi.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings, segir að vinna þurfi að málefnum Vífilfells í náinni samvinnu við Coca Cola Company. „Þetta auðvitað flækir málin,“ segir Finnur. Aðspurður hvort bankanum sé stillt upp við vegg með þessum hætti segir Finnur svo ekki vera. Bankinn gerir jafnframt ekki ráð fyrir því að afskrifa skuldir vegna þessa.

Eins og Morgunblaðið hefur greint frá var áhugi fyrir því innan skilanefndar Landsbankans að taka yfir Toyota á Íslandi, vegna skuldar félagsins Smáeyjar sem er í eigu Magnúsar Kristinssonar, en skuldir félaga í hans í eigu við Landsbankann eru á fimmta tug milljarða króna. Stjórnendur í höfuðstöðvum Toyota í Evrópu töldu að banki væri ekki hæfur innflutningsaðili fyrir Toyota-bifreiðarnar og því var hugsanleg yfirtaka andvana fædd.

Toyota gerir samninga við innflutningsaðila í þeim löndum þar sem fyrirtækið flytur ekki sjálft inn bíla, eins og hér á landi. Toyota í Evrópu setur ekki nein fyrirfram gefin skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til að fá sérstakan sérleyfissamning heldur er það metið í hvert og eitt skipti. Höfuðstöðvar Toyota eru síðan í þeirri aðstöðu að geta afturkallað innflutningsleyfið.

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir