Landsbankinn: Almenningur borgar vegna ákvarðana embættismanna

Á endanum borga skattgreiðendur brúsann.
Á endanum borga skattgreiðendur brúsann. mbl.is

Ákvarðanir um kaup á skuldabréfum út úr peningamarkaðssjóðum fyrir samtals 83,3 milljarða króna áður en sjóðfélagar, þ.e. eigendur hlutdeildarskírteina, fengu greitt út úr sjóðunum voru teknar af bráðabirgðastjórnum nýju ríkisbankanna, Landsbankans, Glitnis og Kaupþings.

Samtals fóru 63 milljarðar hjá Landsbankanum í að kaupa bréf úr peningamarkaðssjóði bankans, 12,6 milljarðar hjá Íslandsbanka og 7,8 milljarðar hjá Kaupþingi.

Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær hafa Landsbankinn og Íslandsbanki afskrifað um 50 milljarða króna vegna uppkaupa þeirra á bréfum úr peningamarkaðssjóðum sem bankarnir ráku. Ekki hafa fengist upplýsingar frá Kaupþingi um hversu mikið hefur verið afskrifað.

Allt útlit er fyrir að það verði eigendur ríkisbankanna, þ.e. skattgreiðendur, sem beri tjónið vegna þessa.

Áður en stjórnir ríkisbankanna tóku við eftir setningu neyðarlaganna voru sérstakar bráðabirgðastjórnir settar yfir bankana í október 2008 af Björgvini G. Sigurðssyni, þáverandi viðskiptaráðherra, og Árna Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra. Voru þessar bráðabirgðastjórnir að mestu skipaðar embættismönnum úr ráðuneytum.

Formaður bráðabirgðastjórnar Nýja Landsbankans var Þórhallur Arason, skrifstofustjóri eigna- og fjárreiðuskrifstofu í fjármálaráðuneytinu. Þóra M. Hjaltested, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, var stjórnarformaður bráðabirgðastjórnar Íslandsbanka.
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir