Vill varkárni í vaxtalækkun Seðlabankans

Merki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Merki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Mark Flanagan, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í málefnum Íslands, segir að sjóðurinn ráðleggi íslenska seðlabankanum að fara varlega í lækkun stýrivaxta þótt vitað sé að þrýstingur sé á vaxtalækkun á Íslandi. Hann segir einnig að Ísland eigi að geta staðið undir erlendum skuldum.

Þetta kemur m.a. fram í viðtali, við Flanagan á vef AGS. Hann er m.a. spurður hvort Ísland muni geta endurgreitt skuldir sínar og segir að erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins muni ná 310% af vergri landsframleiðslu og þar af nái skuldir hins opinbera 135% af vergri þjóðarframleiðslu. 

Þetta sé mun hærra skuldahlutfall en upphaflega var gert ráð fyrir í samningum Íslands og AGS en nýju tölurnar endurspegli betri upplýsingar um það hvernig skuldir bankakerfisins skiptist á milli innlendra og erlendra aðila og einnig skuldir atvinnufyrirtækja. 

Flanagan segist hins vegar telja þessar skuldir viðráðanlegar. Þær muni lækka hratt eftir því sem eignum föllnu bankanna verði komið í verð, skuldir fyrirtækja verði afskrifaðar og hagkerfið og gengi krónunnar nái sér á strik að nýju. Þá eigi Íslendingar umtalsverðar eignir erlendis, þar á meðal lífeyrissjóðirnir. 

Flanagan segir ljóst, að áhrifa hrunsins á Íslandi gæti mest á þessu ári. Atvinnuleysi sé nú komið yfir 7%, úr 1% árið 2007, og bráðabirgðatölur sýni að verg landsframleiðsla muni dragast saman um 8½. Það sé vissulega hátt hlutfall en þó minna en upphaflega var gert ráð fyrir.

Þá hafi orðið mikill samdráttur í einkaneyslu en sá samdráttur hafi einkum komið niður á innflutningi. Raunar hafi dregið minna úr neyslu en talið var í fyrstu, m.a. vegna aðgerða stjórnvalda við skuldbreytingar.

Um hugsanlega vaxtalækkun segir Flanagan, að Seðlabankinn hafi byrjað að lækka vexti í mars og vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana séu nú 9,5% sem sé svipað og víða í stórum nýmarkaðsríkjum. 

„Við vitum að margir á Íslandi vilja gjarnan að vextir lækki enn frekar en við ráðleggjum þeim að fara með gát. Þær hagsbætur, sem fylgja lægri vöxtum, verður að vega og meta á móti þeim neikvæðu áhrifum sem það myndi hafa á gengi krónunnar og verðbólgu, sem skiptir miklu máli fyrir neytendur og fyrirtæki, sem eru með vísitölubundin lán eða gjaldeyrislán. Í ljósi aðstæðna Íslands erum við ekki viss um að heildaráhrifin verði jákvæð," segir Flanagan.

Hann bætir við að það skipti miklu máli fyrir undirstöður efnahags Íslands, að gengi krónunnar haldist stöðugt og að verðbólga lækki. Ljóst sé að stjórntæki peningamála nægi ekki til að ná því fram. 

Næsti vaxtaákvörðunardagur peningastefnunefndar Seðlabankans er 4. nóvember.

Viðtalið við Flanagan

Mark Flanagan.
Mark Flanagan.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK