Kári áfram hjá ÍE

Kári Stefánsson
Kári Stefánsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kaup Saga Investments á Íslenskri erfðagreiningu munu tryggja starfsemina næstu tvö árin hið minnsta. Um 170 störf eru nú hjá ÍE en starfsmenn nokkru fleiri, að sögn Kára Stefánssonar, forstjóra fyrirtækisins. Hann segir að gangi kaupin í gegn muni hann áfram verða í forystuhlutverki hjá ÍE.  

„Þetta eru náttúrulega ekki jákvæðar fréttir að fyrirtæki fari í greiðslustöðvun. En hins ber að geta að við erum búin að vera í erfiðum málum síðan Lehman Brothers fóru á hausinn  og tóku mikið af rekstrarfé okkar með sér," segir Kári. „Við erum búin að vera að berjast í bökkum síðan og þetta er eina leiðin sem tryggir það að starfsemin haldi áfram á Íslandi.

Þetta er eina leiðin sem tryggir að haldið verði áfram að vinna að þeim rannsóknum sem unnið hefur verið að hingað til. Og áfram verða niðurstöðurnar notaðar til að búa til varning sem markaðsettur verður úti í heimi. Þetta er sú besta útkoma sem við gátum fengið. Og ekki má gleyma að þarna er líklega í fyrsta sinn síðan í hruninu mikla verið að flytja erlent fjárfestingarfé inn í landið."

Kári segir að dómstóll í Delaware muni ákveða hve langt ferli verði um að ræða en sjálfur fer hann vestur um haf síðar í dag. Hann reikni með um mánaðarferli, kannski rúmlega það.

Þekkja vel til Íslenskrar erfðagreiningar

Kári segir, að helstu eigendur Saga Investments séu menn sem hafi tekið þátt í að stofna deCODE og þeir viti því vel hvernig hann hafi unnið. Hann reikni með að verða framvegis starfandi stjórnarformaður en sennilega muni reyndur bandarískur kaupsýslumaður taka við sem forstjóri og annast sölu á afurðunum. Þá geti Kári sjálfur gert það sem hann hafi haft lengi hug á, að sinna rannsóknastörfunum en einnig stefnumörkun með forstjóranum. Þeri verði jafningjar í forystunni.

Hann segir að tilboð Saga Investments merki að hægt sé að reka ÍE næstu tvö árin án þess að taka nokkur lán. Ljóst sé að hlutafé deCODE sé tapað en hann geti ekki sagt hve mikið verði greitt fyrir ÍE þar sem nú sé að hefjast uppboðsferill samkvæmt bandarískum lögum sem móðurfélagið deCODE heyri undir. En verðið fyrir ÍE muni amk. ekki geta orðið lægra en tilboð Saga Investments. Íslendingar eigi aðeins lítinn minnihluta í fyrirtækinu og enginn þeirra tapi jafn miklu og hann sjálfur.

Ber einn ábyrgðina

Kári tekur skýrt fram að hann taki sjálfur ábyrgð á því að svona skyldi fara. Upphaflega hugmyndin 1996 hafi verið að nota erfðafræðina til að búa til greiningartæki en leiða megi að því rök að fyrirtækið hafi verið stofnað fimm árum of fljótt, tæknin hafi raunverulega ekki verið til staðar. Þess vegna hafi verið farið út í lyfjaþróun í staðinn. þegar það var gert hafi þolinmæði markaðarins gagnvart langtímamarkmiðum verið mikil. En þegar leiðin hafi verið hálfnuð hafi aðstæður gjörbreyst vegna fjármálakreppunnar.  

„Við enduðum á því að daga uppi að vissu leyti  með 10-15 ára verkefni eftir að hafa unnið að þeim í 7-8 ár. Nú er hins vegar tæknin til staðar til að vinna að þessum erfðafræðiverkefnum á skipulegan hátt. Og við höfum skilað meiri árangri heldur en allur heimurinn samanlagt þannig að við erum í geysilega góðri stöðu til að leiða heiminn í þróun á greiningartækjum sem byggjast á erfðafræði.

Ég ber ábyrgðina, persónulega og prívat, á því hvernig málum er komið. Þetta er ekki Davíð Oddssyni að kenna, ekki Jóni Ásgeiri að kenna og ekki heldur Sigurði Einarssyni eða Hreiðari Má eða suðvestangarranum, þetta er mér að kenna. Menn sem taka að sér að leiða svona verkefni bera ábyrgð, ekki bara þegar vel gengur heldur líka þegar illa gengur. Mér finnst dálítið um það að menn séu að reyna að skjóta sér undan ábyrgð."   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir