Fréttaskýring: Flæði fjármagns heft

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um skattlagningu á arð og hagnað af sölu hlutabréfa felur í sér grundvallarbreytingu á skattkerfinu.

Samkvæmt reglum frumvarpsins verða arðgreiðslur og söluhagnaður hlutabréfa skattlagðar í hvert sinn sem þær renna úr einu hlutafélagi í annað. „Líklegt verður að telja að tillögur ríkistjórnarinnar muni fæla fjárfesta frá þátttöku í atvinnurekstri. Það mun óhjákvæmilega bitna á uppbyggingu íslensks atvinnulífs,“ segir Sigurður Páll Hauksson, löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte.

Hugsunin til þessa hefur verið sú að arð og hagnað af sölu hlutabréfa eigi að skattleggja þegar einstaklingur tekur hann til sín. Hlutafélögum og einkahlutafélögum hefur hins vegar verið heimilt að draga arð og hagnað af sölu hlutabréfa frá skatti. Hlutafélög hafa greitt skatt af öðrum tekjum og munu gera það áfram. Ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi er sú að með þessu móti er flæði fjármagns í atvinnulífinu sem frjálsast og fjárfestar geti með sem bestum hætti fest fé sitt þar sem vænt ávöxtun er mest.

Reglur í frumvarpi ríkisstjórnarinnar gera hins vegar ráð fyrir því að arð og hagnað af sölu hlutabréfa megi félög því aðeins draga frá skatti að þau eigi 10 prósent eða meira í því félagi sem arðinn greiðir.

Umfangsmikil skattahækkun

Fyrir einstakling, sem á einkahlutafélag, sem aftur á hlutabréf í hlutafélagi, þýða breytingarnar að skatthlutfall hans meira en tvöfaldast þrátt fyrir að tekjuskattur fyrirtækja verði 18 prósent og skattur á arðgreiðslur 15 prósent. Fyrir breytingar sitja öll einkahlutafélög við sama borð hvað varðar skattgreiðslur, en eftir breytingar standa þau félög mun betur sem eiga meira en 10 prósent í hlutafélaginu sem upphaflega greiðir arð.

Þegar kemur að því að einstaklingur greiðir sér arð úr einkahlutafélaginu flækjast nýju reglurnar enn meira. Hluti arðsins er skattlagður sem fjármagnstekjur og hluti sem launatekjur. Hvernig arðgreiðslan skiptist milli þessara tveggja þátta fer eftir því hve bókfært eigið fé fyrirtækisins er mikið. Munu fjárfestar því væntanlega reyna að halda jafnvægi milli eigin fjár og arðgreiðslna, hvernig sem þeir gera það. Þá verður einnig að hafa í huga að eigi einstaklingur einkahlutafélag getur hann þurft að skammta sér laun og greiðir af þeim almennan tekjuskatt.

Gera má ráð fyrir því að þeir sem á annað borð eru í þessari stöðu séu í efsta skattþrepi tekjuskattkerfisins.

Hefur þetta margvíslegar afleiðingar fyrir fjárfesta og fyrir atvinnulífið almennt. Ekki verður lengur hagstætt að geyma hlutabréf í einkahlutafélögum nema eignarhlutur fari yfir 10 prósent. Að sama skapi gerir nýja fyrirkomulagið það mun erfiðara fyrir fjárfesta að flytja fjármagn sitt á milli hlutafélaga.

Í gamla fyrirkomulaginu getur einkahlutafélag, sem á 5 prósent hlut í hlutafélagi A, selt hlut sinn og keypt fyrir andvirðið bréf í hlutafélagi B án þess að fjármagn tapist við viðskiptin.

Nýju reglunar þýða hins vegar að einkahlutafélagið greiðir strax skatt af hagnaðinum við sölu á bréfum í A og getur því fjárfest fyrir minna fé í B. Verður þetta óhjákvæmilega til þess að flæði fjármagns verður minna og fjárfesting í hlutabréfum verður óhjákvæmilega minna aðlaðandi.

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir