Tap hjá Landsbanka

Tap á rekstri Landsbankans eftir skatta nam 6,9 milljörðum króna á tímabilinu frá 7. október til 31. desember 2008. Segir bankinn, að þetta skýrist aðallega af tapi tengdu peningamarkaðssjóðum Landsvaka. Ljóst sé, að afkoman á síðasta ári hafi verið mun betri. 

Landsbankinn keypti markaðsskuldabréf af peningamarkaðssjóðum Landsvaka í október 2008 fyrir 38,2 milljarða króna.  Verðmæti skuldabréfanna er hinsvegar fært miðað við allar fyrirliggjandi upplýsingar um núverandi stöðu útgefenda bréfanna, en ekki eins og það var þann í árslok 2008.

Hreinn gengishagnaður af gjaldeyrisjöfnuði að teknu tilliti til virðisrýrnunar, var 32,6 milljarðar króna á tímabilinu og skýrist annars vegar af gengisþróun krónunnar og hinsvegar af þróun gengis erlendra gjaldmiðla. 

Rekstrarkostnaður af reglulegri starfsemi var 4,1 milljarður króna.  Hreinar þóknunartekjur námu 1 milljarði króna. Rekstrarkostnaður tengdur yfirtöku eigna og skulda frá gamla Landsbanka Íslands hf. nam 3,2 milljörðum króna. 

Heildareignir Landsbankans voru 1037 milljarðar króna í árslok 2008 og hækkuðu um rúma 100 milljarða á tímabilinu. Segir bankinn, að þá hækkun megi að stærstum hluta rekja til veikingar krónunnar.

Útlán til viðskiptavina námu á sama tíma 705 milljörðum króna, þar af voru um 170 milljarðar til einstaklinga. Um fjórðungur útlána Landsbankans er til sjávarútvegsfyrirtækja.

Innlán viðskiptavina námu 431 milljörðum króna, þar af voru verðtryggð innlán um 93 milljarðar.  Verðtryggingarjöfnuður bankans er samt jákvæður um 54 milljarða.

Innlán fjármálafyrirtækja voru 132 milljarðar króna. Erlendar fjármálastofnanir eiga stærstan hluta þeirra. Í áætlunum bankans er gert ráð fyrir að þessi innlán færist yfir í aðrar fjárfestingar í síðasta lagi þegar gjaldeyrishöftum verður aflétt af flutningi fjármuna af þessi tagi.  Bankinn segist vera vel búinn til að mæta þessu mögulega útflæði innlána.

Eigið fé bankans var 143 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall var 13% í árslok 2008.

Heildarfjöldi stöðugilda var 1182 í árslok 2008.


 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir