150 milljarða eignir SPRON

Eignir þrotabús SPRON eru nú um 150 milljarðar króna að teknu tilliti til niðurfærslna. Lýstar kröfur í búið eru 250 milljarðar og hefur slitastjórn þegar tekið afstöðu til um 95% þeirra. Samþykktar kröfur erlendra kröfuhafa eru rúmlega 86 milljarðar eða 70% af heildarfjárhæð samþykktra krafna.

Þetta kom fram á kröfuhafafundi SPRON í dag þar sem slitastjórn gerði grein fyrir slitaferlinu, stöðu eigna og skulda, starfsemi í dag, afstöðu til krafna og væntum endurheimtum. Slitastjórnin gerði grein fyrir rannsókn á innri starfsemi SPRON í aðdraganda  yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á sparisjóðnum og segir að sú rannsókn bendi til þess að framundan geti m.a. verið málsóknir vegna riftunar- og skaðabótamála.

Stofnuð hefur verið kröfuhafanefnd erlendra kröfuhafa sem mun funda reglulega með slitastjórn. Kostnaður við slitameðferð er 0,4% af bókfærðu virði eigna og 0,8% af eignum í stýringu. Endurheimtur til almennra kröfuhafa eru áætlaðar á bilinu 10-12%. Útlit er fyrir að slitaferlið geti tekið um fjögur til fimm ár.

Að sögn slitastjórnar er stærsti kostnaðarliður búsins vaxtaskuldbinding gagnvart Arion banka sem Fjármálaeftirlitið hefur úrskurðað um. Samkvæmt úrskurðinum eru vextirnir tæplega milljarður króna á mánuði sem að mati slitastjórnar sé verulega umfram áhættu og kostnað Arion banka af yfirtöku innlána SPRON. Slitastjórn hefur farið fram á endurskoðun þessarar ákvörðunar við Fjármálaeftirlitið og segir, að fáist ekki viðunandi niðurstaða sé ekki útilokað að höfðað verði mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK