Tchenguiz-bræður undirbúa mál gegn Kaupþingi

Robert og Vincent Tchenguiz.
Robert og Vincent Tchenguiz.

Breska blaðið Sunday Telegraph segir, að bræðurnir Robert og Vincent Tchenguiz séu að undirbúa málarekstur á hendur Kaupþingi fyrir breskum og íslenskum dómstólum eftir að skilanefnd bankans hafnaði öllum skaðabótakröfum þeirra í bú bankans, samtals um 440 milljörðum króna.

Vincent Tchenguiz hefur lagt fram forgangskröfu í bú Kaupþings upp á 1,65 milljarða punda en  Robert Tchenguiz kröfu upp á 650 milljónir punda. Eru það samtals um 5% af heildarskuldum Kaupþings.

Telegraph hefur eftir heimildarmönnum, að bræðurnir muni byggja dómkröfur sínar á ásökunum um að fjárhagsstaða Kaupþings hafi verið orðin mjög alvarleg áður en bankinn féll. Hugsanlega muni þeir geta vísað til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem von er á 12. apríl. 

Þá muni bræðurnir líklega reyna að sanna, að Kaupþing hafi veitt rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína og það hafi valdið því að samningar þeirra við bankann hafi ekki verið efndir með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni.

Breska fjármálaeftirlitið er nú að rannsaka starfsemi íslensku bankanna í Bretlandi áður en þeir féllu.  

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir