Allra stærsti skuldarinn

Skuldir Baugs Group og tengdra félaga við stóru bankana þrjá námu, þegar mest var, ríflega 5,7 milljörðum evra. Það var þegar dögum víns og rósa var að ljúka í lok árs 2007, en á gengi þess tíma nam sú upphæð ríflega 518 milljörðum króna. Sé miðað við gengi krónunnar í dag er upphæðin nærri 1.000 milljörðum íslenskra króna.

Í lok árs 2007 jafngiltu lánveitingarnar um 11% af heildarútlánum bankanna þriggja og 53% af eiginfjárgrunni þeirra. Bönkunum var því afar mikilvægt að Baugur Group og tengd félög stæðu í skilum á sínum lánum, ellegar myndi hratt ganga á eigið fé bankanna. Við hrun skuldaði Baugshópurinn 4,5 milljarða evra.

Mest til FL og Landic

Stærstu skuldbindingarnar 30. september 2008 vegna fyrirtækja sem falla í Baugshópinn voru vegna FL Group (935 milljónir evra) og Landic Property (545 milljónir evra) og Mosaic Fashions Finance (470 milljónir evra). Baugur Group eitt og sér skuldaði 473 milljónir evra við hrun bankakerfisins um mánaðamót september og október 2008.

Umdeild tengsl

Rannsóknarnefnd Alþingis skilgreinir fyrirtækjahópa út frá fjárhagslegum tengslum og lágmarkseignarhaldi upp á 20%. Baugur Group skapaði langstærsta fyrirtækjahópinn sem rætt er um í skýrslunni, en alls 184 fyrirtæki falla í Baugshópinn samkvæmt skilgreiningu rannsóknarnefndarinnar. Stærstu fyrirtækin í þeim hópi eru Baugur Group, FL Group, Mosaic Fashions og Landic Property. Í byrjun árs 2008 fóru útlán Glitnis til Baugs og FL Group yfir 40% af eiginfjárgrunni bankans, en Glitnir flokkaði félögin ekki saman þrátt fyrir afgerandi tengingu. Sem kunnugt er var Baugur stór hluthafi í FL Group, sem var stærsti hluthafinn í Glitni. „Almennt voru þessi félög ekki flokkuð saman sem ein áhættuskuldbinding þrátt fyrir þessa skýru tengingu,“ segir í skýrslunni.

Tengsl Baugs og Landic Property eru litin mismunandi augum af rannsóknarnefndinni og fyrrverandi stjórnendum Glitnis. Þannig kemur fram í skýrslunni að áhættunefnd Glitnis taldi á sínum tíma Landic og Baug ekki tengda aðila.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram staðfesting á þeim tengslum sem voru fyrir hendi hjá Landic, Baugi og Glitni. Í september 2008 hugðist Glitnir bæta stöðu sína gagnvart Landic og sendi félaginu erindi þar að lútandi. Skömmu síðar sendi Jón Ásgeir Jóhannesson bréf til forstöðumanns fyrirtækjasviðs Glitnis, þar sem hann spurði hvernig þessar aðgerðir þjónuðu hagsmunum bankans, en hann spurði spurningarinnar sem „aðaleigandi Stoða.“ Rannsóknarnefndin telur þetta meðal annars til marks um hin raunverulegu tengsl sem fyrir hendi voru.

1,3 milljarðar evra til Baugs

Sé litið til fyrirtækisins Baugs Group eins og sér minnkuðu skuldbindingar þess mikið frá því þegar þær voru hvað hæstar fram að hruni. Í árslok 2007 námu skuldir Baugs Group við bankakerfið tæplega 1,3 milljörðum evra. Við hrun námu þær um 473 milljónum evra.

Skýringuna á því má meðal annars rekja til þess að bankarnir höfðu þá byrjað að kaupa eignir af Baugi til að bæta veðstöðu félagsins, en þar má nefnda kaup Landsbankans og Glitnis á hlutum í Iceland af Baugi. Einnig kemur fram í skýrslunni að Kaupþing hafi keypt í Booker og Jane Norman af Baugi í milljarðaviðskiptum.

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir