Marel gert að greiða 5 milljónir í stjórnvaldssekt

Marel
Marel

Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur sektað Marel vegna brota gegn lögum um verðbréfaviðskipti. Þarf Marel að greiða fimm milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna brota um innherjaupplýsingar. Marel hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að félagið sé ekki sammála túlkun FME á brotinu.

Á vef FME kemur fram að þann 25. september 2009 birti Marel Food Systems hf. (Marel) tilkynningu um að sjóðir á vegum Columbia Wanger Asset Managament (Columbia) hefðu fest kaup á samtals 32,2 milljónum hluta í Marel sem jafngildir 5,2% eignarhlut. Það var mat Fjármálaeftirlitsins að innherjaupplýsingar hefðu myndast vegna kaupanna hjá Marel þann 23. september 2009 þar sem að á stjórnarfundi félagsins þann dag hafi stjórn félagsins heimilað og tekið ákvörðun um útgáfu nýrra hluta og sölu eigin bréfa til Columbia.

Mat Marel var að innherjaupplýsingar hefðu ekki myndast fyrr en að kvöldi 25. september. Þá hafi legið fyrir að kaupandi hafði fullan hug á að eignast bréfin, verðhugmyndir hafi verið orðnar nokkuð fastmótaðar og þ.a.l. hafi seljendur verið tilbúnir til þess að selja bréfin auk þess sem afhendingartími var ákveðinn þennan dag ásamt því að ljóst var orðið að ekki yrðu gerð frekari skilyrði af hálfu kaupanda.

Fjármálaeftirlitið taldi hins vegar að þær upplýsingar sem fram komu á stjórnarfundi félagsins hafi verið nægjanlega tilgreindar og nákvæmar í skilningi 120. gr. laga um verðbréfaviðskipti enda er þar tekið fram að selja eigi mikið magn hluta í félaginu, til hvaða aðila eigi að selja hlutina, hve marga hluti og með hvaða hætti, þ.e. með því að nota heimild til útgáfu nýrra hluta og sölu eigin bréfa, ásamt því að annað félag selji Columbia samhliða hluti sína í Marel.

Fjármálaeftirlitið taldi að þó svo að ekki hafi legið fyrir fyrr en að kvöldi 25. september 2009 að samningar myndu nást við Columbia um kaup á hlutum í Marel, þá hafi upplýsingarnar verið þess eðlis að þær gæfu til kynna aðstæður sem eru fyrir hendi eða sem ætla má að verði fyrir hendi eða atburð sem hefur átt sér stað eða sem ætla má að muni eiga sér stað, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Innherjaupplýsingar hafi því myndast hjá félaginu þann 23. september sem félaginu bar að birta í samræmi við lög þar að lútandi.

Fjármálaeftirlitið taldi einnig að Marel hefði borið að senda Fjármálaeftirlitinu lista yfir þá aðila sem fengu aðgang að upplýsingunum en voru ekki á fruminnherjalista félagsins og tilkynna viðkomandi innherjum um það skriflega ásamt því að greina þeim frá þeim réttarreglum sem gilda um innherja og meðferð innherjaupplýsinga

„Það er afstaða Marel að ekki hafi stofnast tilkynningarskylda fyrr en föstudaginn 25. september 2009 þegar líkur á að til viðskipta myndi stofnast voru orðnar meiri en minni, fjárhæð viðskipta ákveðin svo og hverjir væru hinir raunverulegu kaupendur hlutabréfanna. Marel birti upplýsingarnar eins fljótt og auðið var í kjölfar þess, í samræmi við ákvæði laga.

Tekið skal fram að ákvörðunin um tímasetningu birtingar var tekin að vandlega yfirlögðu ráði og í nánu samráði við ráðgjafa félagsins, sem telja að tímasetning birtingar Marels sé í samræmi við lög og venju á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Marel furðar sig á málsmeðferð FME, ekki síst í ljósi þess að um matsatriði er að ræða. Óskaði félagið m.a. eftir fundum með FME til að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri en þeim beiðnum var ávallt hafnað. Marel hefur gert FME skriflega grein fyrir afstöðu sinni, sem og því mati sínu að umrædd ákvörðun sé háð verulegum annmörkum er kunni að valda ógildingu hennar. Stjórn FME hefur engu að síður hafnað að afturkalla ákvörðun sína," að því er segir í tilkynningu frá Marel.

Tilkynning FME

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK