Fréttaskýring: Skuldabréfamarkaðir við suðumark

Átök hafa átt sér stað í Aþenu í vikunni vegna …
Átök hafa átt sér stað í Aþenu í vikunni vegna óánægju mótmælenda með víðtæk niðurskurðaráform stjórnvalda. PASCAL ROSSIGNOL

Markaðir með evrópsk ríkisskuldabréf hafa verið við suðumark í dag vegna skuldastöðu gríska ríkisins og ótta fjárfesta um að ekki verði komist hjá því á endanum að afskrifa skuldir ríkisins og sömu örlög kunni að bíða annarra skuldsettra evruríkja.

Fyrr í dag fór áhættuálagið á grísk ríkisskuldabréf til tíu ára umfram sambærileg þýsk ríkisskuldabréf í 936 punkta en það endaði í 851 punkti við lok viðskipta í gær. Samkvæmt Dow Jones-fréttaveitunni endurspeglar þessi þróun væntingar fjárfesta um að ekki verði komist hjá því að afskrifa skuldir gríska ríkisins um 35%. Þrýstingurinn á markaðnum með grísk skuldabréf gæti aukist enn frekar en eins og breska blaðið Financial Times segir frá þá telur matsfyrirtækið Standard & Poor's að hugsanlega þurfi að afskrifa allt að 70% af skuldum gríska ríkisins.

Skuldir gríska ríkisins nema nú um 120% af landsframleiðslu en gert er ráð fyrir að hlutfallið fari í 150% á næstu árum verði allt neyðarlán annarra evruríkja og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins greitt út. Neyðarlánið nemur um 110 milljörðum evra.

Titringurinn á markaðnum með grísk ríkisskuldabréf í dag endurspeglast einna best í þeirri staðreynd að ávöxtunarkrafan á stuttum bréfum er nú hærri en á lengri bréfum. Krafan á tveggja ára bréf fór í 20% í dag á meðan að krafan á fimm ára bréfum var í 17%. Á sama tíma fór skuldatryggingaálagið á gríska ríkið fór í 960 punkta en það endurspeglar ríflega helmings væntingar um greiðslufall.

Ótti fjárfesta um að vandinn einskorðist ekki við Grikkland fór jafnframt vaxandi í dag. Þannig hækkaði áhættuálagið á portúgölsk ríkisskuldabréf umfram sambærileg þýsk ríkisbréf í 380 punkta. Það stóð í 240 punktum í byrjun vikunnar. Álagið á írsk og spænsk ríkisbréf hækkaði einnig. Það fór í 315 punkta á þeim fyrrnefndu í dag og í 170 punkta.

Þessar hræringar á evrópskum mörkuðum á undanförnu hafa sett stjórnvöld í einstaka ríkjum í undarlega stöðu, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Þannig blasir við að portúgalska ríkið, sem stendur höllum fæti efnahagslega, þurfi að lána gríska ríkinu í tengslum við neyðaraðstoðina á hagstæðari vaxtakjörum en því býðst á fjármálamörkuðum um þessar mundir.

Margt bendir til þess að þungavigtarmenn í evrópskum stjórnvöldum séu að vakna upp við þá staðreynd að ekki verður umflúið að gera breytingar á skipulagi og framkvæmd myntbandalagsins í ljósi þess að gríski skuldavandinn er nú orðinn að sameiginlegu vandamáli á evrusvæðinu. Financial Times segir að þegar leiðtogar evrusvæðisins funda í kvöld til þess að ganga formlega frá lánveitingunni til gríska ríkisins verði umræða um slíkar breytingar efstar á baugi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK