Jón Ásgeir segir sig úr stjórn House of Fraser

House of Fraser í Oxford Street.
House of Fraser í Oxford Street. mbl.is/GSH

Jón Ásgeir Jóhannesson hefur sagt sig úr stjórn bresku verslunarkeðjunnar House of Fraser þar sem hann hefur setið í umboði skilanefndar Landsbankans. Þetta kemur fram í breska blaðinu Financial Times í dag. Ekki er ljóst hvort Jón Ásgeir hefur einnig sagt sig úr stjórn bresku verslunarkeðjunnar Iceland þar sem hann hefur einnig setið í umboði skilanefndar Landsbankans.

FT hefur eftir heimildarmönnum, sem þekkja vel til innan House of Fraser, að Jón Ásgeir hafi sagt sig úr stjórninni í gær vegna skaðabótamálsins, sem slitastjórn Glitnis hefur höfðað á hendur honum og fleiri einstaklingum. Einnig hafa eignir hans verið frystar. Í ljósi þessa hafi hann ekki getað sinnt stjórnarskyldum sínum. 

Um það bil fjögur ár eru liðin frá því Jón Ásgeir fór fyrir hópi kaupsýslumanna og fyrirtækja, sem keyptu House of Fraser.

Stefnan birt í gær

Stefna um kyrrsetningu eigna á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni var birt lögmönnum hans í Bretlandi síðdegis í gær. Þetta staðfesti Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður sitastjórnar Glitnis.

Jóni Ásgeiri var ekki birt stefnan persónulega en að sögn Steinunnar telst það fullnægjandi að lögmennirnir, sem hann hefur leitað til um málsvörn í Bretlandi, taki við stefnunni fyrir hans hönd.

Jón Ásgeir hefur 48 klukkustundir frá því honum var birt stefnan, eða fram til kl. 13 að íslenskum tíma á laugardag, til að skila upplýsingum um eignir sínar. Geri hann það ekki, eða gefi hann rangar upplýsingar, þá eru viðurlög við því og má hann þá búast við því að verða handtekinn og eiga fangelsisvist yfir höfði sér.

Steinunn bendir á að þar sem fresturinn renni út á laugardaginn sé mögulegt að lögmenn Jóns Ásgeirs fari fram á að fresturinn verði framlengdur. Enn sem komið er hafa þeir ekki farið fram á það, en ekki er útilokað að þeir gætu fengið frest fram á mánudag.

„Við munum samt halda því fram að hann eigi að skila þessu innan þessara 48 klukkustunda,“ segir Steinunn. Aðspurð segist hún ekki vita hvar Jón Ásgeir haldi til, ekki hafi tekist að ná í hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK