Tveir vildu lækka vexti meira

Peningastefnunefnd Seðlabankans á fundi.
Peningastefnunefnd Seðlabankans á fundi. mbl.is/Kristinn

Tveir af fimm sem sitja í peningastefnunefnd Seðlabankans, vildu lækka stýrivexti bankans meira þegar tekin var ákvörðun um það í byrjun maí að lækka vextina um 0,5 prósentur.

Fram kemur í fundargerð peningastefnunefndar, sem birt var í dag, að  annar nefndarmaðurinn, sem vildi taka stærri skref, lagði til 0,75 prósentna vaxtalækkun en hinn vildi lækka vexti um 1 prósentu.

Sá fyrrnefndi vísaði meðal annars í jákvæðari horfur eftir að annarri endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lauk, þar sem fjármögnun í tengslum við endurskoðunina væri tryggð, þótt markaðirnir hefðu ekki metið hana að fullu.

Hinn vísaði m.a. til þess að þjóðarbúskapurinn sem og endurskipulagning innlendra efnahagsreikninga kölluðu á meiri vaxtalækkun. Báðir nefndarmennirnir lýstu því þó yfir, að þeir gætu fallist á tillögu seðlabankastjóra um að lækka vextina um 0,5 prósentur í ljósi þess hve munurinn væri lítill. 

Nefndarmenn voru sammála um að héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrktist og verðbólga hjaðnaði eins og spáð sé ættu forsendur fyrir því að draga smám saman úr peningalegu aðhaldi að vera áfram til staðar.

Fundargerð peningastefnunefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir