Stefnt að þriðja sætinu

Höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði
Höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Stjórnendur Actavis stefna að því að fyrirtækið verði þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Þetta kemur fram í viðtali Dow Jones fréttaveitunnar við nýjan forstjóra Actavis, Claudio Albrecht. Í dag er fyrirtækið í fjórða sæti listans yfir stærstu samheitalyfjafyrirtæki heims.

Albrecht segir að þessu markmiði verði ekki náð öðru vísi en með yfirtökum og samvinnu.

Albrecht tók við af Sigurði Óla Ólafssyni á miðvikudag. Sala Actavis var 1,7 milljarðar evra, tæpir 270 milljarðar króna, að sögn Albrecht.

Bandaríska samheitalyfjafyrirtækið Mylan er í þriðja sæti listans yfir stærstu samheitalyfjafyrirtæki heims en ársvelta þess féalgs er 5,1 milljarður Bandaríkjadala, 655 milljarðar króna. Novartis, sem er í eigu Sandoz lyfjafyrirtækisins, er í öðru sæti með 7,5 milljarða dala veltu og Teva Pharmaceutical Industries það stærsta með 16,2 milljarða dala, 2.080 milljarða króna, ársveltu. Þar inni er sala þýska samheitalyfjafyrirtækisins  Ratiopharm sem Teva keypti nýverið og hafði betur í samkeppninni við Actavis.

Lengi hefur verið orðrómur um sameiningu Actavis og þýska samheitalyfjafyrirtækisins Stada Arzneimittel en Albrecht neitaði að tjá sig um það í viðtali Dow Jones.

„Til þess að auka markaðshlutdeild þá væri þetta rétt skref," segir Ulrich Huwald, sérfræðingur hjá  M.M. Warburg. Tekjur Stada námu 1,57 milljörðum evra á síðasta ári.

  Viðtalið við Albrecht er birt á vef bandaríska viðskiptablaðsins Wall Street Journal og er þar meðal annars fjallað um skuldastöðu Actavis en samkvæmt WSJ skuldar Actavis Deutsche Bank fleiri milljarða evra. Því leiðir blaðið líkum að því að bankinn styðji mögulega stækkun Actavis. Hvorki Albrecht eða Deutsche Bank vildu tjá sig um hvort bankinn verði formlega hluthafi í Actavis. Albrecht segir aftur á móti að Actavis hafi nægt fjármagn til þess að stækka enn frekar.

„Ég hefði ekki tekið þessu starfi ef Actavis stæði ekki traustum fótum fjárhagslega," segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK