Væntingavísitalan ekki hærri síðan fyrir hrun

Meiri bjartsýni gætir hjá íslensku þjóðinni nú en oft áður
Meiri bjartsýni gætir hjá íslensku þjóðinni nú en oft áður mbl.is/Ómar Óskarsson

Væntingavísitala Gallup hækkaði í júní um tæplega 4 stig frá fyrri mánuði og stendur nú í 61,2 stigum sem er hæsta gildi hennar frá því fyrir hrun. Vísítalan mælir væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir. Þetta er í fyrsta sinn sem vísitalan kemst upp fyrir 60 stig frá bankahruninu en frá þeim tíma hefur hún að jafnaði mælst að 38 stig.

Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar hækkuðu á milli maí og júní síðastliðinn sem bendir til þess að væntingar neytenda til núverandi ástands í efnahags- og atvinnumálum jafnt og ástandsins eftir sex mánuði eru meiri nú en fyrir mánuði síðan, segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Hefur ekki verið meiri bjartsýni varðandi framtíðina í rúm 2 ár

Mat á núverandi ástandi hækkar um ríflega 2 stig og mælist nú 10,5 stig en væntingar til ástandsins eftir 6 mánuði hækka um tæp 5 stig og mælast nú 95 stig. Í raun hefur landinn ekki verið jafn bjartsýnn á framtíðina síðan í apríl 2008 og er ljóst að lund hans er enn fyrst og fremst bundin framtíðinni enda er gildi vísitölunnar fyrir mat á núverandi ástandi enn verulega lágt.

Margir hyggja á utanlandsferðir

Með Væntingavísitölu Gallup fylgdi að þessu sinni mæling á ársfjórðungslegri vísitölu fyrirhugaðra stórkaupa. Frá síðustu mælingu sem átti sér stað í mars hækkar vísitalan um ríflega 6 stig milli mánaða og mælist nú 52,2 stig sem er hæsta gildi hennar frá bankahruni.

Undirvísitölurnar fyrir bifreiðakaup, íbúðakaup og utanlandsferðir hækka allar en þó mismikið. Umtalsverð hækkun er á vísitölunni fyrir bifreiðakaup en hún hækkar um tæp 11 stig milli mánaða og mælist nú 23,1 stig sem er sambærilegt gildi og hún stóð í september árið 2008. Þessi hækkun kemur þó ekki alls kostar á óvart ef tekið er mið af því að landinn hefur haldið verulega aftur af sér hvað bifreiðakaup varðar síðustu misseri.

 Að þessu sinni hækkaði vísitalan um utanlandsferðir um tæp 5 stig milli mánaða og mælist nú 126,9 stig sem er einnig hæsta gildi hennar frá því í september árið 2008.

„Á hinn bóginn er ekki alveg sömu sögu að segja um vísitöluna fyrir fyrirhuguð húsnæðiskaup en hún hækkar þó um 3 stig milli mánaða og mælist nú 6,6 stig. Þetta er næsthæsta gildi þessarar vísitölu frá bankahruninu en hún mældist 6,8 stig á sama tíma fyrir ári síðan. Í heildina litið er ljóst að íslenskir neytendur er mun líklegri nú að ráðast í stórkaup en þeir hafa verið undanfarin misserin," segir í Morgunkorni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK