Danskir bankar tapað 2.200 milljörðum

Danske Bank.
Danske Bank. mbl.is/GSH

Fjármálakreppan hefur fram að þessu kostað danska banka andvirði meira en fimm Stórabeltisbrúa og margt bendir til að andvirði sjöttu brúarinnar verði bráðum tapað. Hefði það ekki verið fyrir verndarhendi ríkisins væri tap bankanna næstum þrefalt meira. Sagt er frá þessu á fréttavefnum Business.dk

Stærstu bankar Danmerkur hafa tapað 105 milljörðum danskra króna, jafnvirði um 2.190 milljarða íslenskra króna, frá árinu 2008 og til dagsins í dag. Að sögn sérfræðinga og bankanna sjálfra er því ekki lokið.

Í síðustu bankakreppu í Danmörku, 1990 til 1993, nam tap bankanna að jafnaði 1,5 prósenti af efnahagsreikningi þeirra á ári, en árin 2008 og 2009 voru tilsvarandi tölur 0,73 prósent og 1,57 prósent.

Per H. Hansen, prófessor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn segir þetta of mikið tap nú, en ekki alveg jafnmikið og á 10. Áratugnum og alls ekki jafnmikið og í kreppunni miklu. Það er þó ekki bönkunum sjálfum að þakka, að þeir hafi „bara” tapað 105 milljörðum núna. „Við sjáum bara tap bankanna, en það hefði verið miklu meira ef ekki hefði verið fyrir hjálparpakkana frá ríkinu,” segir Hansen.

Í kreppunni miklu tapaði bankageirinn heilum sex prósentum af efnahagsreikningi sínum á aðeins einu ári. „Við hefðum vissulega verið einhvers staðar á þeim slóðum ef ríkið hefði ekki gripið inn í,” segir prófessorinn. Hann segir þess vegna að þetta hafi verið gríðarlega alvarleg kreppa, en segir að fólk eigi að vera ánægt með að stjórnmálamenn hafi bremsað kreppuna niður, áður en hún breiddi úr sér.

Starfsbróðir hans við skólann, Finn Östrup prófessor, óttast hins vegar að tap bankanna sé langt í frá yfirstaðið. „Bankarnir þurf að borga stóra reikninga, þegar þeir fara að raungera tapið á fjölmörgum fjárfestingum í fasteignageiranum, á bókum sínum,” segir Östrup.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir