Líklegt að ríkið þurfi að leggja Íbúðalánasjóði til fé

Tap á rekstri Íbúðalánasjóðs var nærri 1,7 milljarðar króna á fyrri hluta ársins og nam   eigið fé sjóðsins 8,4 milljörðum króna í lok júní. Það jafngildir 2,1% eiginfjárhlutfalli, að sögn Greiningar Íslandsbanka, sem telur líklegt að ríkissjóður þurfi að leggja Íbúðalánasjóði til töluvert eigið fé á næstunni.

Íslandsbanki segir, að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs sé nú orðið talsvert lægra en samræmist langtímamarkmiðum hans en miðað sé við að eiginfjárhlutfallið skuli vera yfir 5%. Rekstur Íbúðalánasjóðs hefur verið erfiður allt frá bankahruninu en sjóðurinn var rekinn með 6,9 milljarða tapi á síðasta ári og eigið fé sjóðsins var 10 milljarðar í lok síðasta árs. 

Vanskil hafa aukist á fyrri hluta ársins og voru 6,3% lántakenda sjóðsins með einn eða fleiri gjalddaga í vanskilum í lok júní 2010 samanborið við 5,3% lántakenda í árslok 2009.

Greining Íslandsbanka segir ljóst af þessum tölum, að lántakendur eigi margir hverjir erfitt með að standa í skilum en auk þeirra, sem séu í vanskilum, hafi helmingur lántakenda Íbúðalánasjóðs verið með lán í greiðslujöfnun um síðustu áramót. Sé sjóðurinn ekki búinn að taka tillit til mögulegra afskrifta eftirstöðva þeirra lána.

Íbúðalánasjóður hefur þurft að  leysa til sín 392 íbúðir frá síðustu áramótum til fullnustu krafna og  á alls 739 íbúðir eða um 0,6% allra íbúða í landinu, en samkvæmt tölum Hagstofunnar  voru 130.000 íbúðir á Íslandi í lok síðasta árs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK